Snæfellskar kvenfélagskonur komu saman

Á hverju ári er þess minnst 19. júní að þann dag árið 1915 hlutu íslenskar konur fjörutíu ára og eldri kosningarétt til Alþingis. Það var svo fimm árum síðar sem konur öðluðust kosningarétt til jafns við karla. Kvenfélagskonur í Kvenfélagasambandi Snæfellsness og Hnappadalssýslu, (KSH), gera sér alltaf glaðan dag af þessu tilefni og skiptast á að sjá um daginn. Að þessu sinni var það Kvenfélag Hellissands sem sá um að taka á móti konunum. 43 konur frá Kvenfélagi Ólafsvíkur, Kvenfélaginu Hringnum í Stykkishólmi og Kvenfélaginu Gleym mér ey í Grundarfirði, Kvenfélaginu Björkinni í Helgafellssveit ásamt konum úr Kvenfélagi Hellissands á öllum aldri hittust og áttu skemmtilegt kvöld þar sem margt var spjallað.

Kvenfélagskonur á Hellissandi buðu upp á kjúklingasalat í Sjóminjasafninu á Hellissandi. Að því loknu var farið í skoðunarferð um Hellissand og Rif, þar sem Drífa Skúladóttir sagði frá því helsta sem fyrir augu bar. Voru konur sérstaklega hrifnar af „Street art“ listaverkunum sem búið er að mála undanfarnar vikur á hin ýmsu hús. Að skoðunarferðinni lokinni var farið aftur í Sjóminjasafnið þar sem eftirrétturinn beið. Þóra Olsen sagði svo konum frá Sjóminjasafninu og uppbyggingu þess og enduðu konur á því að skoða þetta myndarlega safn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir