Kvenfélagskonur fengu svuntur að gjöf í tilefni 80 ára afmælis

Kvenfélagið 19. júní í Borgarfirði hélt upp á 80 ára afmælið sitt á kaffihúsinu Skemmunni á Hvanneyri í síðustu viku og voru 30 kvenfélagskonur mættar til að halda upp á daginn. Rósa Marinósdóttir, hjúkrunarfræðingur og formaður félagsins til rúmlega fimm ára, sagði þetta hafa verið einstaklega skemmtileg stund. „Við fögnuðum afmælinu á Hvanneyri og bauð kvenfélagið upp á vöfflukaffi í Skemmunni, kaffihúsinu okkar hér á Hvanneyri. Við vorum með smá samsæti áður en við funduðum í örlitla stund. Eftir það tók við skemmtiatriði fyrir konurnar og í framhaldi af því var öllum kvenfélagskonum færð gjöf í tilefni afmælisins. Allar fengu þær svuntu sem var búið að sauma í Kvenfélagið 19. júní, 80 ára 2018. Þetta var vel heppnuð stund og allir skemmtu sér vel,“ segir Rósa um afmælisfagnaðinn.

Kvenfélagið var stofnað fyrir 80 árum þegar frú Sigríður Bjarnadóttir húsfreyja á Hesti boðaði til fundar á bænum sínum sunnudaginn 19. júní árið 1938 til að stofna kvenfélag. Tíu konur úr héraðinu mættu til fundarins og í kjölfarið var kvenfélagið 19. júní stofnað á kvenréttindadaginn.

Sjá nánar í Skessuhorni sem kom út í dag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir