
Aftanákeyrsla við Leirársveitarveg
Bíl var ekið aftan á annan kyrrstæðan á þjóðvegi 1 við Beitistaði í Hvalfjarðarsveit skömmu fyrir hádegi í dag. Ökumaður fyrri bílsins hugðist beygja til vinstri inn á Leirársveitarveg og var að bíða vegna umferðar á móti þegar hinum bílnum var ekið aftan á hann. Þrennt var í bílunum og var fólkinu ekið til aðhlynningar á sjúkrahús. Enginn slasaðist þó alvarlega. Talsverðar tafir urðu á umferð meðan viðbragðsaðilar voru að störfum á vettvangi.