Norræn strandmenningarhátíð framundan á Siglufirði

„Þar verður sungið, smíðað og þæft, unnið með roð, rekavið, ull og net, myndir sýndar, prjónað og járnið hamrað. Dansað og leikið og málþing haldin. Þegar kvöldar tekur svo Þjóðlagahátíðin við þar sem tónlistin ómar og sungið verður fram yfir miðnætti,“ segir í tilkynningu frá Vitafélaginu sem stendur fyrir norrænni strandmenningarhátíð á Siglufirði dagana 4.-8. júlí. Undirbúningur er í höndum Vitafélagsins -í slenskrar strandmenningar, Síldarminjasafns Íslands og Fjallabyggðar. „Hátíðin fer fram í samvinnu við árlega Þjóðlagahátíð og mun tónlist því leika stórt hlutverk. Mikill áhugi er á hátíðinni bæði hérlendis og erlendis en þátttakendur munu koma frá öllum norrænu ríkjunum. Einnig hafa einstaklingar í Króatíu óskað eftir að fá að upplifa hátíðina og sýna brot af eigin strandmenningu.“

Ár hvert eru strandmenningarhátíðir haldnar víða um heim og oft er barist um að fá þá til þátttöku sem bestir eru á sínu sviði. Svo er einnig nú, en þrátt fyrir það þá velja frændur okkar að sækja Ísland heim öðru fremur. Norðmenn, sem án efa eru þjóða fremstir í varðveislu, nýtingu og nýsköpun á menningararfinum sigla m.a. M/S Gamle Oksøy til Siglufjarðar drekkhlaðinni af minni bátum og sýningargripum. M/S Gamle Oksøy er nú í eigu og umsjá vitasafnsins á Lindesnesi en þjónaði áður vitum Noregs. Danir munu miðla sögu freigáturnnar Jylland sem færði okkur Íslendingum stjórnarskrána á sínum tíma.  Í samstarfi við Bohuslän Museum í Uddevalla í Svíþjóð verður sett upp sögusýning á Síldarminjasafninu um síldveiðar Svía við Íslandsstrendur og sér í lagi við Siglufjörð. Þá er á dagskrá að kynna ólíkar útfærslur á síldarréttum og bjóða hátíðargestum að bragða á ýmisskonar síld á skandinavíska vísu. Grænlendingar senda bæði söng- og leiklistarfólk til þátttöku.

Siglfirskar síldarstúlkur munu salta síld á planinu við Róaldsbrakka og standa þannig vörð um gömlu verkþekkinguna. Boðið verður upp á bátasmíðanámskeið í gamla Slippnum og tveggja daga málþing fer fram í Gránu, um varðveislu og viðhald báta og skráningu súðbyrðings á heimsminjaskrá UNESCO. Þátttaka Íslendinga verður fjölbreytt og má nefna siglingaklúbba landsins, eldsmiði sem munu leika listir sínar, handverksfólk vinnur með ull, roð, æðardún, riðar net og fleira, bátasmiðir verða við vinnu, ljósmyndaklúbbur Fjallabyggðar verður með sýningu í Sauðanesvita og yngstu þátttakendurnir fá stefnumót við hafið. Vitafélagið-íslensk strandmenning átti frumkvæðið að þessum hátíðum og er hugmyndasmiður þeirra. Þær hafa verið haldnar árlega frá árinu 2011 og eflt samstarf og þekkingu á þessum þætti menningararfsins og hvernig nýta má hann til nýsköpunar og atvinnuuppbyggingar.

Á heimasíðu Vitafélagssins má sjá dagskrána nær fullgerða www.vitafelagid.com

Líkar þetta

Fleiri fréttir