Bergþór Kristleifsson og Hrefna Guðrún Sigmarsdóttir á Húsafelli í gönguferð. Ljósm. úr einkasafni.

Vilja gera Húsafell að áfangastað sem allir vilja heimsækja

Á undanförnum árum hefur mikil uppbygging átt sér stað á Húsafelli í Borgarfirði. Þar var Hótel Húsafell opnað árið 2015 og hefur hótelið nú fengið viðurkenningu National Geographic Unique Lodges of the World sem framúrskarandi gististaður á heimsvísu. Til að fá þessa viðurkenningu þarf að uppfylla mjög strangar gæðakröfur en aðeins um 60 aðrir gististaðir í heiminum hafa fengið þessa sömu viðurkenningu og verða þeir ekki fleiri en 100. Gististaðir sem hljóta þessa viðurkenningu þurfa að gangast undir stranga gæðaúttekt þar sem m.a. er lögð áhersla á sjálfbærni svæðisins, staðbundna afþreyingu og stórbrotna náttúru. Húsafell er því vel til þess fallið að hljóta viðurkenningu sem þessa enda er þar að finna einstaka náttúru, heitt og kalt vatn sem m.a. er notað til að framleiða rafmagn. Í kjölfar viðurkenningarinnar hefur ýmsum framkvæmdum verið hrundið af stað á svæðinu.

 

Endurbætur á golfvellinum

Eitt af því sem lögð hefur verið áhersla á hjá Ferðaþjónustunni á Húsafelli er fjölbreytt afþreying á svæðinu og má þar sem dæmi nefna níu holu golfvöll sem notið hefur mikilla vinsælda meðal gesta undanfarna áratugi. Nú á vordögum hófst vinna við endurbætur á vellinum. „Golfvöllurinn hefur verið í dálítilli lægð hjá okkur vegna annarra framkvæmda á staðnum. Við fengum því til okkar tvo golfvallarsérfræðinga núna í vor til að taka völlinn út og gera fáeinar smávægilegar breytingar. Hugmyndin er að færa aðeins til nokkrar flatir en ekki verður farið í neinar slíkar framkvæmdir fyrr en með haustinu. Í sumar verða gerðar litlar endurbætur en ekkert sem mun hafa áhrif á spilara á vellinum,“ segir Bergþór Kristleifsson í samtali við Skessuhorn.

 

Veglegt hlaðborð í hádeginu

Samhliða vaxandi ferðaþjónustu á Húsafelli og nágrenni hefur fjöldi gesta sem kemur í Húsafell aukist dag frá degi. Margir hverjir nýta sér veitingaþjónustu sem þar er í boði, bæði á hótelinu og Húsafell Bistro. „Við bjóðum upp á veglegt hlaðborð á Húsafell Bistro í hádeginu alla daga auk þess sem hægt er að panta af hefðbundnum matseðli. Fyrir þá sem vilja aðeins fínni mat er alltaf hægt að borða á hótelinu,“ segir Hrefna Guðrún Sigmarsdóttir á Húsafelli. Húsafell Bistro var tekið í gegn að utan í fyrra en núna í vor fékk það yfirhalningu að innan auk þess sem miklar endurbætur voru gerðar á eldhúsi hótelsins. „Við erum að fá til okkar margar rútur fullar af fólki í mat á hverjum degi auk þess sem hjá okkur borðar vinnufólk af svæðinu og aðrir gestir. Eldhúsið sem við vorum með var ekki að anna þessum fjölda fólks nægilega vel. Réðumst við því í að koma upp betri aðstöðu og erum nú komin með mjög veglegt iðnaðareldhús á hótelinu,“ segir Bergþór.

 

Merkja fyrir gönguleiðum um svæðið

Margt ferðafólk sem kemur til Íslands vill upplifa einstaka náttúru landsins og er Húsafell upplagður áfangastaður í þeim tilgangi. „Á síðasta ári fórum við af stað með verkefni þar sem við byrjuðum að merkja fyrir gönguleiðum hér um Húsafellssvæðið. Þetta eru mislangar og misjafnlega erfiðar gönguleiðir en allir við sæmilega heilsu ættu að geta gengið þær allar,“ segir Hrefna og heldur áfram. „Búið er að merkja nokkrar af þessum gönguleiðum með stikum og á næstu árum verða fleiri leiðir merktar. Í sumar verða sett niður skilti á tveimur gönguleiðunum þar sem fólk getur lesið um þau svæði sem verið er að ganga.“ Þá stendur einnig til í sumar að gera bílaplan og koma upp bekkjum við upphafspunkt þessara gönguleiða. „Við ætlum að bæta aðkomuna að svæðinu í sumar og gera þetta að upplögðum áfangastað fyrir hópa sem vilja upplifa einstaka náttúru svæðisins,“ bætir Hrefna við. „Þetta er einn liður í því að koma upp fjölbreyttum afþreyingamöguleikum á Húsafelli. Það er okkar markmið að gera Húsafell að þannig áfangastað að það sé fólk vilji koma til Íslands eingöngu til að heimsækja Húsafell,“ segir Bergþór.

 

Urðafellsvirkjun komin í fullan rekstur

Aðspurður hvort fleiri framkvæmdir séu á dagskrá svarar Bergþór því að það sé alltaf nóg að gera í Húsafelli. „Við höfum framkvæmt mikið undanfarin ár og það er alltaf eitthvað sem okkur langar að gera meira. Í vetur komum við af stað nýrri virkjun, Urðafellsvirkjun, og er hún nú komin í fullan rekstur og gengur allt smurt. Við byggðum einnig sex íbúða raðhús fyrir starfsmenn Húsafells sem fluttu inn í íbúðirnar skömmu fyrir síðustu jól. Við myndum alveg vilja byggja fleiri slík hús og það er aldrei að vita nema það verði gert,“ segir Bergþór. „Okkar stærsta verkefni er að gera Húsafell að áfangastað sem allir vilja heimsækja og það krefst þess að við höldum okkur vel við efnið. Okkur finnst miðað við þann fjölda sem heimsækir landið okkar ekki nógu margir heimsækja Húsafell. Við viljum fá fleiri hingað og erum því alltaf að vinna að því að efla þá starfsemi sem hér, hvort sem það er á Húsafelli eða í nágrenninu. Við verðum að muna að allt sem við gerum hér á Vesturlandi helst í hendur og við þurfum öll að vinna saman að því að gera landshlutann að eftirsóknarverðum áfangastað fyrir ferðafólk,“ segir Bergþór að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir