Úr salnum á 380 Restaurant á Reykhólum. Ljósm. úr einkasafni.

Fyrsti veitingastaðurinn opnaður á Reykhólum

Veitingastaðurinn 380 Restaurant var opnaður á Reykhólum 14. júní síðastliðinn. Staðurinn verður rekinn af hjónunum Reyni Þór Róbertssyni og Ásu Fossdal en þau reka Hólabúð á Reykhólum. „Þetta er fyrsti veitingastaðurinn sem opnaður er á Reykhólum og er langþráður draumur að rætast. Til að byrja með verðum við með sæti fyrir 24 en salurinn getur tekið 50 manns,“ segir Reynir í samtali við Skessuhorn.

Aðspurður segir Reynir að opið verði alla daga í sumar frá klukkan 11:30 til 21. „Við höfum ekki tekið neina ákvörðun um opnun í vetur og komum bara til með að spila það eftir eyranu. Kannski verður opið nokkur kvöld í mánuði, kannski nokkur kvöld í viku, það mun allt koma í ljós þegar við sjáum hver eftirspurnin verður,“ segir Reynir og bætir því við að alltaf verði hægt að panta borð fyrir hópa. „Í hádeginu á virkum dögum ætlum við að bjóða upp á hlaðborð þar sem boðið verður upp á kjötrétti, fiskrétti, súpu, nýbakað brauð og salat. Þá erum við líka með stórann skjá þar sem við munum sýna frá stórviðburðum eins og t.d. HM,“ bætir hann við.

 

Áhersla á mat úr héraði

Matseðillinn kemur til með að vera nokkuð hefðbundinn með árstíðabundnu ívafi. „Við munum bjóða upp á þetta hefðbundna eins og hamborgara, pizzur, steikur og slíkt. Þá verður áherslan á að hafa matvæli úr héraði og því mun matseðillinn vera nokkuð háður árstíðum. Hugmyndin er að hafa bláskel úr Króksfjarðarnesi, ærkjöt héðan úr sveitinni, sveppi úr Gufudalssveit, osta úr Dölum og svo að sjálfsögðu munum við nýta berjalandið okkar. Það er okkar markmið að reyna eftir bestu getu að fá sem mest af hráefni héðan af þessum tanga og leyfa fólki að kynnast því,“ segir Ása. „Við ætlum líka að bjóða upp á selkjöt en ekki þennan hefðbundna soðna sel með jafningi. Við munum reiða hann fram sem forrétt bara til að fólk geti smakkað,“ bætir hún við.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Látrabjarg er nú friðlýst

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur skrifað undir plagg til friðlýsingar Látrabjargs. Viðstaddir undirskriftina voru fulltrúar Bjargtanga, félags land-... Lesa meira