Þrír menn á Gesti SH sigldu á vettvang og björguðu manninum sem hafði fallið fram af klettunum við Miðgjá á Arnarstapa. Ljósm. af.

Féll fyrir björg á Arnarstapa

Stjórnstöð Landhelgisgæslu Íslands fékk tilkynningu frá neyðarlínunni kl. 12:30 í dag þess efnis að maður hefði fallið fram af klettum við Miðgjá á Arnarstapa og væri þar í sjónum. Þyrla landhelgisgæslunnar var kölluð út auk þess sem þrír heimamenn réru á Gesti SH á staðinn og öðrum bátum var beint þangað. Voru það mennirnir á Gesti sem fyrst komu á vettvang og björguðu manninum úr sjónum um kl. 13:00. Maðurinn var kaldur og aðframkominn að þreytu þegar honum var komið um borð í bátinn. Þaðan var siglt með hann rakleiðis til hafnar þar sem sjúkraflutningamenn voru mættir á staðinn. Stuttu síðar lenti þyrlan á Arnarstapa og kom manninum undir læknishendur í Reykjavík.

Maðurinn sem féll fyrir björgin var erlendur ferðamaður. Miðgjá á Arnarstapa er vinsæll viðkomustaður ferðamanna á leið um Snæfellsnes. Mun maðurinn hafa verið þar við myndatöku þegar hann féll niður klettana, að því er heimildir Skessuhorns herma.

Líkar þetta

Fleiri fréttir