Vilhjálmur Birgisson er formaður Verkalýðsfélags Akraness. Ljósm. úr safni/ mm.

Segir Hval meina starfsfólki sínu að vera í VLFA

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, segir í pistli á Facebook-síðu sinni í gær að forsvarsmenn Hvals hf. hafa bannað starfsfólki sínu að vera meðlimir í Verkalýðsfélagi Akraness. „Þegar starfsmenn komu til fundar með forsvarsmönnum Hvals í morgun [miðvikudaginn 20. júní; innskot blaðamanns] þá var þeim tilkynnt að enginn mætti vera í Verkalýðsfélagi Akraness heldur yrðu allir að vera í Stéttarfélagi Vesturlands þrátt fyrir að starfsstöð Hvals í Hvalfirði sé á félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness,“ segir Vilhjálmur.

Telur hann þetta vera tilraun forsvarsmanna Hvals til að refsa verkalýðsfélaginu fyrir að hafa höfðað mál gegn Hvali vegna vanefnda á kjörum starfsmanns samkvæmt ráðningasamningi. Dómur féll í málinu í hæstarétti síðastliðinn fimmtudag. Hæstiréttur úrskurðaði að Hvalur hf. skyldi greiða manninum rúmar 500 þúsund krónur ásamt dráttarvöxtum, að því er fram kemur í dómi Hæstaréttar. „Þessi dómur hefur fordæmisgildi fyrir alla starfsmenn sem störfuðu á vertíðunum 2013, 2014 og 2015 og því getur þessi dómur skilað uppundir 300 milljónum ef fordæmisgildið nær til allra starfsmanna,“ segir Vilhjálmur.

Þannig segir Vilhjálmur forsvarsmenn Hvals reyna að refsa VLFA með því að meina starfsmönnum sínum í félaginu. „Vegna þess að Verkalýðsfélag Akraness uppfyllti sínar lagalegu skyldur við að tryggja og varðveita réttindi sinna félagsmanna,“ segir Vilhjálmur og bætir því við að lögmaður verkalýðsfélagsins hafi þegar sent forsvarsmönnum Hvals bréfs þar sem þessum aðgerðum er harðlega mótmælt. „Er þetta […] gróft brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur frá árinu 1938 og andstætt öllum leikreglum á hinum almenna vinnumarkaði,“ segir hann. „Mun Verkalýðsfélag Akraness mæta af fullri hörku því þessi aðgerð er siðlaus og lítilmannleg sem er fólgin í að stilla starfsmönnum upp með þeim hætti að ef þeir hafna ekki að vera í Verkalýðsfélagi Akraness munu starfsmenn jafnvel ekki fá starfið,“ segir formaður Verkalýðsfélags Akraness.

Líkar þetta

Fleiri fréttir