Íslenska ríkið tekur við Hvalfjarðargöngum í haust

Gjaldtöku verður hætt í september

Íslenska ríkið tekur við Hvalfjarðargöngum í haust og einkahlutafélaginu Speli, sem á og rekur göngin, verður slitið. Gjaldheimtu í göngin verður hætt í septembermánuði. Nánari tímasetning verður að líkindum ákveðin og tilkynnt í ágúst. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Spalar. „Sá möguleiki var ræddur fyrst á árinu 2009 að ríkið tæki við Speli og þar með göngunum og öðru sem tilheyrir rekstri þeirra og starfsemi félagsins. Í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu var hins vegar ákveðið í maímánuði 2018 að ríkið tæki við göngunum einum en ekki félaginu sem á þau og rekur,“ segir í tilkynningunni. „Ríkið mun ekki ráða neinn til sín úr núverandi starfsmannahópi Spalar.“

Í samningi ríkisins við Spöl er kveðið á um faglega úttekt á göngunum í aðdraganda afhendingar þeirra 2018. Verkfræðistofan Mannvit mun sjá um úttektina sem Spölur annast, en verkefnið verður unnið með aðkomu Vegagerðarinnar. Þá hefur Spölur óskað þess að Ríkisendurskoðun muni fylgjast með lokauppgjöri verkefnisins.

 

Veglyklar endurgreiddir

Um 20 þúsund áskriftarsamningar Spalar og viðskiptavina félagsins um afsláttarferðir eru í gildi. Þá eru um það bil 53 þúsund veglyklar í umferð. Fólk kann einnig að hafa í fórum sínum töluverðan fjölda afsláttarmiða. Inneignir, veglyklar og afsláttarmiðar verða endurgreiddir. „Veglyklar verða innkallaðir gegn greiðslu skilagjalds, viðskiptavinir fá greiddar inneignir sínar á áskriftarreikningum og greitt verður sömuleiðis fyrir ónotaða afsláttarmiða,“ segir á vef Spalar.

Búast má við því að það taki tíma sinn að gera upp við alla þessa viðskiptavini Spalar eftir að innheimtu- og rekstrartíma fyrirtækisins lýkur. Gert er ráð fyrir að uppgjörið standi yfir til ársloka að frágangi bókhalds og annars sem tilheyri starfslokum og slitum Spalar ljúki ekki fyrr en á fyrsta ársfjórðungi 2019.

Líkar þetta

Fleiri fréttir