Grásleppa sett í kör á bryggjunni í Stykkishólmi. Ljósm. sá.

Heilt yfir góður gangur í grásleppunni

Grásleppuvertíðin við innanverðan Breiðafjörð stendur nú sem hæst. Flestum grásleppubátum í landshlutanum er róið frá Stykkishólmi. Einn þeirra sem rær á grásleppu er Einar Jóhann Lárusson í Ögri, sem rær á Kviku SH-292. „Þetta er einn af minnstu bátunum í flotanum,“ segir Einar í samtali við Skessuhorn. Faðir hans, Lárus Franz Hallfreðsson, rær til skiptis við Einar. „Við byrjuðum að róa 20. maí, um leið og vertíðin byrjaði. Það gekk reyndar hægt að róa í upphafi, þar sem við vorum bundnir í sauðburði í Ögri. En við höfum róið stíft síðan í byrjun júní,“ segir hann.

Einar segir vertíðina heilt yfir hafa gengið vel það sem af er. Fiskurinn virðist vel haldinn, stór og pattaralegur og alveg nóg af honum. „Við erum mest að leggja í kringum eyjarnar hér vestur af Stykkishólmi, erum ekki að fara langt. Það er alveg merkilegt hvað er mikið af fiski þar. Það var reyndar aðeins meira í fyrra en þetta er ágætt í ár, þó það mætti auðvitað alltaf vera meira af fiski,“ segir hann. „Við erum á það litlum bát að 1,3 til 1,5 tonn yfir daginn er mjög gott. Það er ekkert á við það sem stóru bátarnir eru að draga, en við erum mjög glaðir ef við náum því,“ segir hann og bætir því við að flestir dagar á vertíðinni hafi verið nokkuð góðir hvað aflann varðar. „Verðið fyrir hrognin er líka hærra en í fyrra, þó ég muni ekki nákvæma tölu. Við erum glaðir yfir því,“ bætir hann við.

Einar er ungur maður, 23 ára gamall, en því fer fjarri að hann sé blautur á bakvið eyrun þegar kemur að grásleppuveiðum. „Ég fór fyrstu vertíðina með pabba þegar ég var tólf ára gamall, þannig að þetta er ellefta vertíðin mín. Pabbi byrjaði líka þegar hann var tólf ára þannig að þetta  er 46. vertíðin hans,“ segir hann. Aðspurður segist hann ekki lofa að hann muni róa jafn lengi og pabbi sinn, en kveðst þó ekkert á leiðinni að hætta. „Mér finnst þetta skemmtilegt, annars væri ég ekki búinn að vera í ellefu ár að þessu. En ég viðurkenni að mér fannst þetta alveg hundleiðinlegt fyrst. Síðan vandist þetta og ég hef orðið mjög gaman af þessu,“ segir Einar í Ögri að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir