Gylfi Arnbjörnsson í ræðustól. Ljósm. ASÍ.

Gylfi hættir sem forseti ASÍ

Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslansd, ætlar ekki að bjóða sig fram til endurkjörs á þingi ASÍ næsta haust. Hann tilkynnti þetta á miðstjórnarfundi sambandsins í dag.

Gylfi hefur verið forseti ASÍ undanfarinn áratug. Hann var fyrst kjörinn í október 2008 og hefur fjórum sinnum verið endurkjörinn. Hann kom fyrst til starfa hjá verkalýðshreyfingunni 1989 sem hagfræðingur ASÍ hjá kjararannsóknarnefnd. Hann var framkvæmdastjóri ASÍ frá 2001 þar til hann var kjörinn forseti 2008.

Gylfi segir að það hafi ekki verið einföld ákvörðun að stíga til hliðar, en hann telji hana engu að síður rétta. „Ég tók við sem forseti ASÍ þremur vikum eftir hrun og það var gríðarleg áskorun sem beið okkar sem vorum í forystu á vinnumarkaðinum á þeim tíma. Nú tíu árum síðar erum við komin fyrir vind og vel það. Kaupmáttaraukningin á síðustu þremur árum er sú mesta í Íslandssögunni, atvinnuleysi er lítið, verðbólga lág og vextir í sögulegu lágmarki, þótt enn séu þeir alltof háir. Allir þessir þættir skipta launafólk miklu máli,“ segir Gylfi.

Hann segir deilur innan verkalýðshreyfingarinnar hafa harðnað undanfarið og tekist sé á um leiðir í kjarabaráttunni. „Í þeim deilum virðist því miður sem persóna mín, í stað skoðana minna, sé orðin aðalatriði og þá á kostnað málefnalegrar umræðu. Alþýðusambandið er meira en 100 ára gamalt og gríðarlega mikilvægt í allri réttinda- og kjarabaráttu launafólks á Íslandi. ASÍ er mun stærra en nokkur einstaklingur, en ég viðurkenni að það er erfitt og lýjandi að eiga í átökum við félaga sína. Ég hef ávallt verið reiðubúinn til að berjast með félögum mínum og fyrir þá, en að berjast við þá gefur mér ekkert og skilar heldur engu fyrir hreyfinguna,“ segir hann.

Gylfi kveðst sannfærður um að sú sýn sem forysta ASÍ og aðildarfélaga sambandsins hafi haft sem leiðarljós síðustu áratugina hafi skilað miklum árangri. Vonast hann til að áhersla verði áfram lögð á að tryggja stöðugleika og langtímaárangur í kjarabaráttu. „Ef brotthvarf mitt getur orðið til þess að auka líkurnar á að áfram verði haldið á svipuðum nótum ber mér að íhuga stöðu mína og hlutverk. Það hef ég nú gert og niðurstaða mín er sú að ég mun ekki gefa kost á mér sem forseti ASÍ á þinginu okkar í haust. Ég tek þessa ákvörðun í þakklæti og auðmýkt fyrir að hafa fengið að starfa fyrir íslenska verkalýðshreyfingu allan minn starfsferil. Ég vona sannarlega að hreyfingin nái vopnum sínum og sameinist í störfum sínum fyrir launafólk á Íslandi í komandi kjarasamningum. Verkalýðshreyfingin er nefnilega svo miklu öflugri þegar allir róa í sömu átt,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.

Líkar þetta

Fleiri fréttir