Lagið fluttu þeir Kristján Karl og Hafsteinn í Skallagrímsgarðinum síðar um daginn. Ljósm. tþ

Flutti lag sitt á hátíðarsamkomu í Alþingishúsinu

Ungur nemandi Tónlistarskóla Borgarfjarðar, Kristján Karl Hallgrímsson frá Vatnshömrum í Andakíl, kom fram við hátíðlega athöfn í Alþingishúsinu 17. júní síðastliðinn á samkomu þar sem ný hátíðarútgáfa af Íslendingasögum og þáttum var afhent. Kristján Karl flutti þar eigið lag við ljóð Sigríðar Einarsdóttur frá Munaðarnesi, sem var fædd árið 1893. Viðstödd voru m.a. Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti og Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands auk ráðherra. Var gerður afar góður rómur að lagi og flutningi Kristjáns sem er einungis tíu ára gamall. Samkoman var á vegum afmælisnefndar um 100 ára fullveldi Íslands, en Alþingi fól nefndinni að stuðla að heildarútgáfu Íslendingasagnanna á afmælisárinu.

Lagið sem Kristján Karl samdi var fyrst flutt á sameiginlegum tónleikum Safnahúss og Tónlistarskóla Borgarfjarðar í Borgarnesi fyrsta sumardag, en þessar tvær stofnanir standa árlega að verkefninu; „Að vera skáld og skapa“, þar sem nemendur skólans velja ljóð eftir borgfirskt skáld og semja lag við það undir handleiðslu kennara sinna. Kennari Kristjáns Karls við tónlistarskólann er Hafsteinn Þórisson. Síðar á þjóðhátíðardaginn fluttu þeir Kristján Karl og Hafsteinn lagið í hátíðarsamkomu í Skallagrímsgarði.

Kristján Karl í Alþingishúsinu. Ljósm. hjs.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Mottumars er hafinn

Átaki Krabbameinsfélagsins, Mottumars, var formlega hrundið af stað síðastliðinn föstudag. Átakið snýst um, eins og landsmenn þekkja, krabbamein í körlum.... Lesa meira