Kristjana og Daníel hafa nú stofnað fyrirtækið Krúttin ehf.

Búin að stofna einkahlutafélagið Krúttin

Hjónin Daníel BJ Guðrúnarson og Kristjana G Bjarnadóttir eru búsett á Akranesi. Nýverið létu þau gamlan draum rætast og hafa stofnan fyrirtækið Krúttin ehf. og hafa nú fengið kennitölu og bíða eftir að fá virðisaukanúmer afhent hjá skattinum. „Með þessu erum við að láta gamlan draum verða að veruleika. Okkur skilst að það séu mjög fáir og kannski engir öryrkjar sem hafa stigið skrefið og stofna svona lögformlegt fyrirtæki áður,“ segir Daníel. „Við höfum hins vegar verið að sýsla eitt og annað, haft smávægilegan rekstur í eigin nafni og svoleiðis. Með því að stofna einkahlutafélag deilum við áhættunni hins vegar jafnt og njótum svo vonandi ávinningsins síðar. Við ætlum hins vegar ekki að steypa okkur í skuldir og svoleiðis, eins og þekkist með marga sem stofna eigið fyrirtæki. Ætlum að fara varlega til að byrja með og safna okkur fyrir húsnæði og bíl til að nota í reksturinn,“ segir Daníel.

Krúttin ehf. munu sýsla við ýmis verkefni. Þau panta og kaupa inn ýmsar vörur í gegnum sölusíður á borð við Ebay og AliExpress og selja svo vörurnar á mörkuðum, bæjarhátíðum og öðrum mannamótum. „Svo er Kristjana að hanna og prjóna ýmislegt sem hún selur,“ segir Danni. Á heimasíðunni kruttin.com má sjá marga nytjahluti sem Kristjana hefur prjónað. Þá hafa þau skötuhjúin komið að ýmsu öðru. Hafa meðal annars rekið Skagarásina, sem hefur um árabil sent út útvarpsþætti á netinu. Danni hefur einnig verið liðtækur í tölvutækninni og tekur að sér viðgerðir á símum og tölvum og býður auk þess upp á vefhýsingu og rekstur útvarpsnetþjóns. Þá er hann umboðsaðili fyrir Woopos sölukerfið. Af þessu má sjá að þau Kristjana og Danni koma víða við.

„Það hafa margir glaðst með okkur, óskað okkur til hamingju og segja okkur huguð að ráðast í rekstur á fyrirtæki. Við ætlum hins vegar að fara varlega og taka ekki nein lán. Viljum frekar safna fyrir því sem við eignumst. Þá hefur bæði viðskiptabankinn okkar og bókhaldsstofan verið okkur hjálpsöm nú þegar við stígum fyrstu skrefin. Framundan er svo að taka þátt í mörkuðum á sem flestum bæjarhátíðum og setjum þar upp söluborð, allavega ef leigan fyrir borðin er ekki of hátt verðlögð. Við verðum t.d. á Brákarhátíð í lok mánaðarins, á Írskum dögum og vonandi einnig á Fiskideginum mikla og víðar,“ segja þau hjón Danni og Kristjana að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir