Ný móttaka Sjóminjasafnsins. Ljósm. þa.

Mikil vinna að baki uppbyggingu Sjóminjasafnsins á Hellissandi

Sjóminjasafnið á Hellissandi var opnaði að nýju eftir veturinn á sjómannadaginn með opnun á ljósmyndasýningu Karls Jeppesens. Myndirnar eru úr bók Karls „Fornar hafnir, útvegur úr aldanna rás“ og var sýningin sett upp í nýju móttökuhúsi Sjóminjasafnsins sem byggt var í vetur. Þessi nýja viðbygging er um 70 fermetrar að stærð og kemur hún til með að bæta aðkomu gesta að safninu auk þess sem þar verður kaffisala.

Safnið mun vera opið alla daga í sumar frá klukkan 10-17 og eru nú tvær sýningar þar í gangi: „Sjósókn undir Jökli“ og „Náttúran við Hafið“ en sýningarnar hannaði Björn G. Björnsson. Sjóminjasafnið er staðsett í Sjómannagarðinum á Hellissandi og var komið þar upp af Sjómannadagsráði á Hellissandi og Rifi. Þar er einnig að finna endurgerð af síðustu þurrbúð sem búið var í á Hellissandi, „Þorvaldarbúð“, sem var endurgerð í garðinum 1977-1978. Eldra safnahúsið var svo reist í kringum 1980 yfir elsta fiskibát sem varðveittur er á Íslandi, Blika 1826. Annar hluti safnsins, bátaskýlið, var reist árið 2008 og Blikinn færður þar yfir ásamt öðrum bát í eigu safnsins, Ólafi Skagfjörð, sem er nú í viðgerð og ekki til sýnis.

Sjóminjasafnið er í dag sjálfseignarstofnun og rekin af sjálfboðaliðum, þeim Þóru Olsen, Erni Hjörleifssyni og Óskari Skúlasyni. Þau hafa lagt á sig ómælda vinnu við uppbyggingu safnsins síðustu tvö ár og hafa þau, að sögn Þóru, fyrir löngu týnt tölunni á öllum þeim vinnustundum sem þau hafa lagt í það. Svona uppbygging kostar að sjálfsögðu peninga, þrátt fyrir mikla sjálfboðavinnu, og að sögn Þóru hefur safnið notið mikillar góðvildar frá Snæfellsbæ og útgerðum í Snæfellsbæ sem standa þétt við bakið á safninu. Án þeirra hefði þessi uppbygging safnsins ekki orðið að veruleika. Þá vill Þóra þakka kærlega öllum þeim sem hafa styrkt þessa uppbyggingu, Snæfellsbæ, Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi, útgerðum, fyrirtækjum og einstaklingum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir