Ingibjörg Birna hættir sem sveitarstjóri Reykhólahrepps

Ingibjörg Birna Erlingsdóttir hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til áframhaldand starfa sem sveitarstjóri Reykhólahrepps. Hefur hún tilkynnt oddvita um ákvörðun sína. Frá þessu greinir Ingibjörg í færslu sem hún ritar á Reykhólavefinn.

Hún hefur gegnt starfinu síðustu átta ár, eða undanfarin tvö kjörtímabil. Áður starfaði hún sem skrifstofustjóri Hvalfjarðarsveitar, frá vordögum 2006 og þar til hún tók við starfi sveitarstjóra Reykhólahrepps árið 2010. Ingibjörg segir margt hafa gerst undanfarin átta ár og mörgu hafi verið áorkað. Hún hafi öðlast lífsreynslu sem hún hefði ekki viljað missa af. Sveitarstjórnarfólk og samstarfsfólk hennar hafi verið opið fyrir því að koma sem flestum verkefnum í framkvæmd með hag sveitarfélagsins að leiðarljósi. „Hér hafa allir unnið sem einn og við búum við það að hjá okkur starfar opið og fúst starfsfólk, sem vill og hefur metnað til að gera betur í dag en í gær og þykir óendanlega vænt um sveitarfélagið sitt. Og má vera stolt af sveitarfélaginu okkar,“ segir Ingibjörg. „Ég vil þakka öllum íbúum Reykhólahrepps fyrir góða viðmótið sem þið hafið sýnt mér í gegnum árin. Einnig þakka ég öllu samstarfsfólki nær og fjær frábært samstarf og viðkynningu í gegnum árin.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir