Kynntu breytingar á skipulagi Sementsreits

Gert ráð fyrir heimild til að rífa strompinn

Að kvöldi þriðjudagsins 5. júní var haldinn kynningarfundur um breytt deiliskipulag Sementsreitsins á Akranesi. Breytingin á skipulaginu felur í sér að heimilt verði að rífa Sementsstrompinn. Endanleg ákvörðun þess efnis verður tekin í bæjarstjórn að loknu formlegu skipulagsferli.

Byrjað var á að rifja upp niðurstöður ráðgefandi skoðanakönnunar um framtíð strompsins sem fram fór í íbúagátt á vef Akranesbæjar dagana 18.-24. apríl síðastliðna. Alls tjáðu 1095 íbúar á Akranesi hug sinn í könnuninni og var niðurstaðan sú að 94,25% greiddu atkvæði með því að strompurinn yrði felldur en 5,75% vildu að hann fengi að standa áfram. Niðurstöðurnar þessar voru kynntar bæjarráði á fyrsta fundi eftir að kosningu lauk. Ráðið lagði til að þær yrðu hafðar til hliðsjónar við frekari skipulagningu á Sementsreit. Skipulags- og umhverfisráð fól síðan sviðsstjóra að undirbúa skipulagsbreytingar reitsins í þá veru að heimilt verði að fella strompinn. Þær breytingar voru til kynningar á fundinum.

 

Stykki fyrir stykki

Næst var greint stuttlega frá hugmyndum verktaka varðandi tæknilega útfærslu á niðurrifi strompsins. Verði ákveðið að strompurinn skuli víkja áformar verktaki ekki að fella strompinn heldur rífa hann. Það verði gert með því að saga ofan af honum í stykkjum sem krani ræður við að láta síga til jarðar, þar til 27 metrar standa eftir. Þá verði beltavélar notaðar til að brjóta niður það sem eftir stendur. Áætlaður kostnaður vegna niðurrifs strompsins með þessum hætti er um það bil 23 milljónir króna, að því er fram kom á fundinum.

 

Formlegar athugasemdir mikilvægar

Sjónarmið bæði með og á móti því að strompurinn yrði felldur komu fram á fundinum. Ítrekað var á kynningunni að engin ákvörðun hefði verið tekin um framtíð strompsins. Aðeins væri að fara af stað skipulagsferli sem heimilaði niðurrif hans. Endanleg ákvörðun um framtíð strompsins yrði tekin í bæjarstjórn að undangengnu lögbundnu lýðræðislegu deiliskipulagsferli. Það ferli mun að lágmarki taka 14 vikur. Bæjarstjórn gæti því tekið endanlega ákvörðun um framtíð Sementsstrompsins í fyrsta lagi um miðjan september.

Þeir sem eru andvígir því að strompurinn verði felldur, hafa aðrar athugasemdir við skipulagsbreytinguna eða vilja einfaldlega koma sjónarmiðum sínum á framfæri voru hvattir til að gera formlegar athugasemdir við skipulagsbreytinguna þegar hún verður auglýst. Íbúar gætu haft áhrif með athugasemdum sínum. Mikilvægt væri að þær athugasemdir væru settar fram með formlegum hætti svo hægt væri að taka þær til greina í skipulagsferlinu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Gleðilegt sumar!

Skessuhorn óskar lesendum sínum, ungum sem gömlum, til sjávar og sveita, gleðilegs sumars.