Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri, Eðvarð Lárusson bæjarlistamaður og Ingþór Bergmann Þórhallsson formaður menningar- og safnanefndar.

Eðvarð Lárusson er Bæjarlistamaður Akraness

Eðvarð Lárusson tónlistarmaður, oftast kallaður Eddi Lár, er bæjarlistamaður Akraness árið 2018. Útnefning hans var kynnt á hátíðarhöldum á Akratorgi í gær. Eddi hóf ungur að árum að leika á gítar og lærði gítarleik fyrst í Tónlistarskólanum á Akranesi og síðar í Tónlistarskóla FÍH þaðan sem hann útskrifaðist frá djassdeild árið 1991. Hann hefur á löngum og farsælum ferli spilað með mörgum af þekktustu tónlistarmönnum landsins. Hann vakti fyrst athygli á Akranesi á unglingsaldri með Skagahljómsveitinni Tíbrá. Úr Tíbrá fór hann í Start og síðan hefur hann meðal annars spilað með Bubba, Blúsboltunum og Bítladrengjunum blíðu, Andreu Gylfadóttur vinkonu sinni, verið gítarleikari Stórsveitar Reykjavíkur, J.J. Soul Band og Gæðablóðum svo eitthvað sé nefnt. Hann hefur komið fram á hundruðum ef ekki þúsundum tónleika, spilað inn á fjöldan allan af hljómplötum og lögum, og ekki bara spilað heldur einnig útsett.

Í apríl 2015 hélt Eddi sína fyrstu eiginlegu sólótónleika. Á efnisskránni var tónlist eftir Neil Young í útsetningum Edda, en með honum spiluðu þar þeir Karl Pétur Smith á trommur og Pétur Sigurðsson á bassa. Sá viðburður vakti mikla athygli.

Eddi hefur lengi starfað sem kennari við Tónlistarskólann á Akranesi. Hann hóf fyrst störf árið 1984 en hefur starfað við skólann óslitið frá 2008. Hann hefur snert strengi í hjörtum ótal nemenda og þannig haft mikil og jákvæð áhrif á tónlistarmenntun Skagamanna og tónlistarlífið á Akranesi. „Það er fátt sem reynist tónlistarnemanda betur en góður kennari sem kennir ekki bara á hljóðfærið heldur hvetur áfram og opnar augu og eyru nemandans fyrir töfrum tónlistarinnar. Eddi er vinsæll kennari og hefur sett saman hópa og hljómsveitir innan skólans og margsinnis komið fram með nemendum við hin ýmsu tækifæri. Nýlegt dæmi er hljómsveitarstjórn í söngleiknum Með allt á hreinu sem NFFA setti upp í samstarfi við Tónlistarskólann nýliðinn vetur,“ segir í tilkynningu frá Akraneskaupstað.

Líkar þetta

Fleiri fréttir