Aflamark þorsks hækkar um 3%. Ljósm. úr safni.

Aflamark ýsu og ufsa hækkað umtalsvert

Einnig smávægileg hækkun í þorski

Hafrannsóknastofnun kynnti á miðvikudag úttekt á ástandi nytjastfona og ráðgjöf fyrir næsta fiskveiðiár. Á grundvelli langtímamarkmiða um sjálfbæra nýtingu er lagt til aflamark fyrir á þriðja tug stofna. Miðað er við varúðarsjónarmið og hámarksnýtingu til lengri tíma litið.

Ráðlagt aflamark ýsu er 57.982 tonn fyrir fiskveiðiárið 2018 til 2019. Það samsvarar 40% aukningu frá síðasta ári. Aflaregla ufsa gerir ráð fyrir 30% aukningu fyrir næsta fiskveiðiár, úr 60.237 tonnum í 79.092 tonn. Lagt er til að aflamark þorsks verði hækkað um 3% bytt á aflareglu stjórnvalda, úr 257.572 tonnum í 264.437 tonn fyrir fiskveiðiárið 2018-2019.

Árgangar gullkarfa hafa verið með lakasta móti frá 2006 og því hefur hryngingastofn tegundarinnar minnkað lítillega. Samkvæmt aflareglu verður heildaraflamark gullkarfa á næsta fiskveiðiári því 43.600 tonn, sem er 14% lækkun frá fyrra ári. Samtals 90% heildaraflamarks gullkarfa kemur í hlut Íslendinga, eða 39.240 tonn, en hin 10% koma í hönd Grænlendinga skv. samkomulagi þjóðanna. Ráðgjöf fyrir grálúðu er óbreytt frá síðasta ári, eða 24.150 tonn. Samkvæmt samkomulagi Grænlands og Íslands koma 13.500 tonn í hlut Íslendinga.

Stofn íslensku sumargotssíldarinnar hefur minnkað um nær 60% undanfarinn áratug, vegna slakrar nýliðunar og frumdýrasýkingar. Ekki er að vænta mikilla breytinga í stofnstærð næstu ár, þar sem árgangarnir sem koma inn í veiðistofninn eru litlir og sýkingarhlutfall mælist hátt. Aflaregla fyrir síld verður 35.186 tonn, sem er 9% lækkun frá yfirstandandi fiskveiðiári.

Ráðgjöf fyrir flatfiskstofna er lítið breytt frá síðasta fiskveiðiári, að þykkvalúru undanskilinni. Ráðlagt aflamark hennar eykst um 20% í 1.565 tonn. Lækkun aflamargs er lögð til fyrir blálöngu, löngu, keilu, skötusel og gulllax. Ráðgjöf fyrir steinbít hækkar úr 8.540 tonnum í 9.020 tonn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir