Ný bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar ásamt nýjum bæjarstjóra. F.v. Þóra Stefánsdóttir, Hrafnhildur Hallvarðsdóttir, Ásmundur Sigurjón Guðmundsson, Steinunn Ingibjörg Magnúsdóttir, Jakob Björgvin Jakobsson, Haukur Garðarsson, Erla Friðriksdóttir og Lárus Ástmar Hannesson. Ljósm. sá.

Ný bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar ætlar að fækka nefndum

Á mánudag fór fram fyrsti fundur nýrrar bæjarstjórnar í Stykkishólmi. Nokkur mál voru þar á dagsskrá. Hrafnhildur Hallvarðsdóttir oddviti H-listans var kosin forseti bæjarstjórnar og samþykkt að Jakob Björgvin Jakobsson yrði nýr bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar. Hann er fæddur og uppalinn Hólmari sem flutti til Reykjavíkur 16 ára gamall og snýr nú aftur á æskuslóðirnar. Jakob nam lögfræði við Háskólann í Reykjavík og hefur sinnt alls kyns lögmannsstörfum síðan þá. „Það er mikið af nýju fólki í bæjarstjórn en líka mikið af reynslu til staðar. Við erum bjartsýn á gott samstarf næstu fjögur árin,“ segir Hrafnhildur jákvæð um nýju bæjarstjórnina.

Kjör í frekari nefndir var frestað því hugur er á að fækka þeim yfir og gera þær skilvirkari, að sögn Hrafnhildar. Næsti bæjarráðsfundur verður haldinn fimmtudaginn 14. júní en stefnt er að klára allar nefndaskipan fyrir 28. júní.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Mokveiði í dragnót

Dragnótarbáturinn Steinunn SH frá Ólafsvík lenti heldur betur í mokveiði rétt undan Ólafsvík á sunnudaginn. Köstuðu skipverjar dragnótinni aðeins þrisvar... Lesa meira