Sveitarstjórn Borgarbyggðar ásamt sveitarstjóra. Ljósm. Borgarbyggð.

Fyrsti fundur nýrrar sveitarstjórnar í Borgarbyggð

Nýkjörin sveitarstjórn Borgarbyggðar fundaði fyrsta sinni í gær, miðvikudaginn 13. júní. Á fyrsta fundi var kosið í helstu trúnaðarstörf. Lilja Björg Ágútsdóttir var kjörin forseti sveitarstjórnar, Magnús Smári Snorrason fyrsti varaforseti og Finnbogi Leifsson annar varaforseti. Samþykkt var að semja við Gunnlaug A. Júlíusson um að hann gegni áfram starfi sveitarstjóra næstu fjögur árin, eða út kjörtímabilið 2018 til 2022.

Byggðarráð skipa þau Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir formaður, Lilja Björg Ágústsdóttir varaformaður og Guðveig Eyglóardóttir. Áheyrnarfulltrúi í byggðarráði er Magnús Smári Snorrason.

Umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefnd skipa Sigríður Júlía Brynleifsdóttir formaður, María Júlía Jónsdóttir varaformaður, Sigurður Guðmundsson, Davíð Sigurðsson og Orri Jónsson.

Fræðslunefnd er skipuð þeim Magnúsi Smára Snorrasyni formanni, Lilju Björg Ágústsdóttur varaformanni, Guðmundi Frey Kristbergssyni, Sigrúnu Sjöfn Ámundadóttur og Einari Guðmanni Örnólfssyni.

Velferðarnefnd skipa Silja Rún Steingrímsdóttir formaður, Logi Sigurðsson varaformaður, Friðrik Aspelund, Finnbogi Leifsson og Kristín Erla Guðmundsdóttir.

Samþykkt var að Halldóra Lóa Þorvalsdóttir yrði áheyrnarfulltrúi sveitarfélagsins í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur og María Júlía Jónsdóttir yrði fulltrúi Borgarbyggðar í stjórn Faxaflóahafna. Kjöri í aðrar nefndir var frestað fram að aukafundi sveitarstjórnar í byrjun júlí.

 

„Fjölbreytt tækifæri“

Málefnasamningur meirihlutasamstarfs Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Samfylkingarinnar var lagður fram á fundinum. „Þau, sem að þessu samstarfi standa, vilja að Borgarbyggð nýti þau miklu og fjölbreyttu tækifæri sem blasa við. Tækifæri til að bæta þjónustu og búsetuskilyrði, byggja upp innviði og mannauð,“ segir í samningnum.

Meðal þess sem nýr meirihluti leggur áherslu á er að áfram verði gætt aðhalds í rekstri og sett skýr fjárhagsleg markmið fyrir kjörtímabilið þar sem meðal annars verði sett markmið um lækkun fasteignagjalda. Rafræn stjórnsýsla verði aukin og íbúagáttin notuð með markvissari hætti og haldið fast við áætlun um ljósleiðaravæðingu sveitarfélagsins. Leitað verði leiða til að flýta lagningu þriggja fasa rafmangs til að styrkja atvinnustarfsemi í dreifbýli og þrýst á Vegagerðina um endurbætur á tengivegakerfinu.

Nýr meirihluti vill „lækka leikskólagjöld í leikskólum Borgarbyggðar með niðurgreiðslu á skólamáltíðum. Einnig skal stefnt að frekari niðurgreiðslu á máltíðum í grunnskólum sveitarfélagsins,“ segir í samningnum. Þar kemur einnig fram að fjöldi starfsstöðva grunnskólans verði óbreyttur og unnið að því að bæta aðstöðu nemenda og starfsfólks allra skóla. Þá verði staðið vel að viðbyggingum og endurbótum á skólahúsnæði sem eru á framkvæmdaáætlun.

Málefnasamninginn má lesa í heild sinni með því að smella HÉR

Líkar þetta

Fleiri fréttir