Frá Laugum í Sælingsdal. Ljósm. úr safni.

Segir að aðeins hafi seljendaláni verið mótmælt

Eins og áður hefur verið greint frá í Skessuhorni var sveitarstjórn Dalabyggðar afhentur undirskriftalisti fyrir fund sinn 24. maí síðastliðinn. Alls höfðu 213 íbúar sveitarfélagsins skrifað undir eftirfarandi:

„Í samræmi við 64. gr. samþykkta um stjórn sveitarfélagsins Dalabyggðar óskum við undirrituð eftir því að almenn atkvæðagreiðsla fari fram um mál nr. 1609021 – sala eigna – Laugar og Sælingsdalstunga sbr. tillögu Arnarlóns ehf. frá 13. maí sl. um lausn á málinu. Við erum á móti því að Dalabyggð veiti seljendalán.“

Einn þeirra sem lagði nafn sitt við listann hafði samband við Skessuhorn nú í morgun. Vildi hann koma því á framfæri að með undirskriftasöfnuninni hafi því eingöngu verið mótmælt að Dalabyggð veitti seljendalán vegna sölu á eignum sveitarfélagsins að Laugum í Sælingsdal og Sælingsdalstungu. Sölunni hafi ekki verið mótmælt, „en við erum á móti því að Dalabyggð veiti seljendalán,“ sagði maðurinn, sem vildi ekki láta nafns síns getið.

Aðspurður sagði hann að málsgreinin sem skrifað var undir hefði ef til vill mátt vera öðruvísi orðuð og að misskilnings hefði gætt í umræðu um undirskriftasöfnunina í samfélaginu og fréttaflutningi.

 

Undirskriftalistinn marklaus

Eftir að undirlistinn var afhentur kom á daginn að hann reyndist marklaus vegna formgalla. Greint er frá því í Skessuhorni vikunnar og hér á vefnum. Þá hefur einnig verið greint frá því að fimm af sjö fráfarandi sveitarstjórnarfulltrúum Dalabyggðar hafa sent formlega kvörtun til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis og dómsmálaráðuneytis vegna þess hvernig staðið var að söfnun undirskriftanna.

Líkar þetta

Fleiri fréttir