Sólarlag í Dölum. Ljósm. úr safni/ sm.

Ráðuneytum send kvörtun vegna undirskriftasöfnunar

Fimm af sjö fráfarnadi sveitarstjórnarfulltrúum í Dalabyggð hafa sent formlega kvörtun til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis og dómsmálaráðuneytis vegna sveitarstjórnarkosninganna 26. maí síðastliðinn. Jóhannes Haukur Hauksson, fráfarandi oddviti, er einn þeirra fimm sveitarstjórnarfulltrúa sem sendu kvörtunina til ráðuneytanna. „Kvörtunin til sveitarstjórnarráðuneytis lýtur að því hvernig staðið var að söfnun undirskrifta þar sem sölunni á Laugum í Sælingsdal var mótmælt í aðdraganda kosninga. Sú söfnun var ekki lögmæt þar sem sveitarstjórn var ekki upplýst um málið fyrr en daginn sem listinn var afhentur. Þá var enginn ábyrgðarmaður fyrir söfnun undirskriftanna, eins og lög kveða á um og aðeins hafði hluti íbúa kost á að leggja nafn sitt við listann,“ segir Jóhannes í samtali við Skessuhorn. „Í öðru lagi er það staðreynd að sá sem afhenti okkur undirskriftarlistann tveimur dögum fyrir kosningar hafði áður gefið kost á sér í sveitarstjórn. Annar frambjóðandi, sem einnig hafði gefið kost á sér, tók þátt í að safna undirskriftunum. Það sem við erum að biðja dómsmálaráðuneyti um er að kanna lögmæti þess að frambjóðendur í persónukjöri safni undirskriftum um eitthvað málefni í aðdraganda kosninga,“ segir hann.

 

„Ekki boðleg vinnubrögð“

Jóhannes segir augljóst í huga fráfarandi sveitarstjórnarfulltrúanna að söfnun undirskriftanna tengist kosningunum með beinum hætti. „Það er augljóst í okkar huga að þetta tengdist kosningunum. Ekki höfðu allir kost á að skrifa undir heldur var farið á valda staði að safna undirskriftum. Sex af þeim sjö sem náðu kjöri til sveitarstjórnar skrifuðu undir listann. Við erum ekki að segja að þeir hafi allir staðið að undirskriftasfönuninni, en við vitum fyrir víst að tveir af nýkjörnum sveitarstjórnarfulltrúum gerðu það,“ segir Jóhannes.

Enginn þeirra sveitarstjórnarfulltrúa sem gáfu kost á sér áfram voru kjörnir. „Ég gaf ekki kost á mér til endurkjörs og er því ekki að þessu af því ég sé svekktur að hafa ekki verið áfram. Aftur á móti finnst mér óeðlilegt hvernig staðið var að þessum málum og það þykir fráfarandi sveitarstjórnarfulltrúum einnig. Það sem fyrir okkur vakir er að vekja máls á því að þetta eru ekki boðleg vinnubrögð og reyna að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur. Þess vegna höfum við sent þessa kvörtun til ráðuneytanna,“ segir Jóhannes Haukur að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir