Anna Þóra Böðvarsdóttir ásamt starfsstúlkum sínum á Kaffihúsinu Gilbakka. F.v. Selma Marín Hjartardóttir, Anna Þóra og Aníta Sif Pálsdóttir. Ljósm. þa.

Kaffihúsið Gilbakki opnað á Hellissandi

Nýtt og glæsilegt kaffihús var opnað á Hellissandi á dögunum. Kaffihúsið Gilbakki, sem staðsett er við Höskuldarbraut, er rekið af þeim hjónum Önnu Þóru Böðvarsdóttur og Lúðvík Ver Smárasyni. Áður hefur Anna Þóra rekið Gamla Rif til margra ára en því er nú búið að breyta í gistihús.

Húsnæði kaffihússins er sérstak fyrir margra hluta sakir. Sem dæmi má nefna að húsið er hannað og smíðað af Lúðvík en faðir hans, Smári Lúðvíksson, smíðaði húsið með honum og var það svo flutt þangað sem það stendur. Andrúmsloftið á þessu nýja kaffihúsi er mjög notalegt og heimilislegt og greinilegt að mikill metnaður var lagður í öll smáatriði, hvort sem var í smíðinni eða innanstokksmunum. Á eftir hæð hússins er ætlunin að hafa jóga í framtíðinni ásamt ýmsu fleiru.

Á matseðlinum eru ekki einungis fjölbreyttir kaffidrykkir, gæðakaffi, kökur og brauð heldur verður fiskisúpan fræga sem boðið var upp á í Gamla Rifi auðvitað á matseðlinum. Aðspurð sagði Anna Þóra að sennilega væri helsta sérstaða kaffihússins sú að allt bakkelsið og brauð væri bakað á staðnum. Ætla hún og starfsstúlkurnar hennar tvær, þær Aníta Sif Pálsdóttir og Selma Marín Hjartardóttir, að standa vaktina frá 9 til 18 alla daga í sumar. Sagði Anna Þóra að hún myndi svo breyta opnunartímanum í vetur og vera þá með opið þrjá daga í viku. Þá væri sjálfsagt að hafa samband ef áhugi væri á að koma með hópa utan opnunartíma. „Bara hringja og panta,“ sagði hún áður en hún rauk í eldhúsið að huga að ofninum og sinna gestunum sem mættir voru.

Líkar þetta

Fleiri fréttir