Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra setur upp fyrsta Icelandic Lamb skjöldinn á erlendri grundu á veitingastaðnum Yuki Daruma í Tókýó í Japan.

Íslenskt lambakjöt í útrás

Um 200 tonn seldust í Japan í fyrra

Markaðsstofan Icelandic Lamb hefur undanfarin misseri unnið að markaðssetningu á íslensku lambakjöti í Japan. Er það gert í samvinnu við kjötútflytjendur og japanska innflutningsfyrirtækið Global Vision. Fyrirtækið flytur inn til Japans ýmsar sérvörur frá Evrópu og Norður-Ameríku og selur til veitingastaða, dreifingaraðila og sérverslana.

„Íslenskt lamba- og hrossakjöt er það nýjasta í vörulínu japanska fyrirtækisins sem hefur lagt töluvert undir við markaðssetningu á íslenskum afurðum. Nú þegar er íslenskt lambakjöt komið á matseðla um 100 veitingastaða í Japan og fæst auk þess í völdum verslunum. Í verkefninu er horft til næstu fimm ára en hingað til hefur sala verið afar góð og líkur á aukinni markaðshlutdeild á næstu árum. Sala undir hatti verkefnisins nam um 200 tonnum í fyrra,“ segir í tilkynningu frá Icelandic Lamb.

Sölu íslensks lambakjöts í Japan má einkum skipta í tvo hluta. Í fyrsta lagi eru fluttir út dýrari bitar á góðu verði til veitingastaða og sérverslana. Í öðru lagi eru fluttir út feitir frampartar sem fara á veitingastaði sem sérhæfa sig í mongólsku grilli. „Einnig fór af stað í ár vöruþróunarverkefni á sérstökum lambakjötsrúllum úr íslensku lambakjöti sem m.a. eru nýttar í japanska rétti eins og Shabu Shabu. Í báðum tilfellum elda viðskiptavinir réttina sjálfir við borðið og íslenskt lambakjöt þykir hafa sérstaka eiginleika sem nýtast vel á þessari tegund veitingastaða,“ segir í tilkynningu Icelandic Lamb.

 

Sérverkefni í útflutningi

Helsta verkefni markaðsstofunnar Icelandic Lamb snýr að því að kynna íslenskt lambakjöt og aðrar sauðfjárafurðir fyrir erlendum ferðamönnum á Íslandi. Komið hefur verið á samstarfi við um 160 aðila í veitingarekstri, framleiðslu, hönnun og nýsköpun. Þar af eru um 120 íslenskir veitingastaðir í samstarfi um að setja lambakjöt í öndvegi.

Auk þess vinnur markaðsstofan að sérstökum útflutningsverkefnum og er samtarfið við Global Vision eitt slíkra. Samstarfssamningur þess efnis var gerður á síðasta ári. Gerir hann ráð fyrir stigvaxandi markaðshlutdeild íslensk lambakjöts á Japansmarkaði. „Í honum felst einnig að allt markaðsefni Icelandic Lamb sé þýtt á japönsku, sett verði upp japönsk heimasíða og samvinna um markaðsefnis fyrir samfélagsmiða,“ segir í tilkynningunni.

Á dögunum var skrifað undir fyrsta formlega samstarfssamning Icelandic Lamb við veitingastað erlendis. Var hann gerður við veitingastaðinn Yuki Daruma í Tókýó í Japan. Nafn staðarins þýðir snjókarl og eigandi hans er fyrrum súmóglímukappi. „Staðurinn er einn af þekkustu veitingarstöðum Tókýóborgar sem bjóða upp á mongólskt grill. Staðurinn er sérstaklega þekktur fyrir að veggir hans eru þaktir eiginhandaráritunum frægra íþróttamanna og leikara. Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra Íslands, setti upp fyrsta Icelandic Lamb skjöldinn á Yuki Daruma, en hann var í opinberri heimsókn til Japan á dögunum,“ segir í tilkynningunni. „Fimmtán aðrir veitingastaðir hafa þegar óskað eftir því að gera sambærilegan samstarfssamning og skuldbinda sig um leið til þess að bjóða eingöngu upp á íslenskt lambakjöt og hafa það ávallt á matseðli. Að auki verða fljótlega opnaðir þrír mongólskir grillstaðir til viðbótar sem munu sérhæfa sig í íslensku lambakjöti en þess má geta að ekkert annað kjöt verður á matseðli.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir