Svipmynd frá strandstað. Á myndinni má sjá bæði Gretti BA og sjómælingaskipið Baldur. Ljósm. Haukur Páll Kristinsson.

Grettir strandaði á Breiðafirði

Grynningar ranglega merktar inn á kort

Grettir BA, skip Þörungaverksmiðjunnar á Reykhólum, strandaði á grynningum skammt utan við Stykkishólm á tíunda tímanum í fyrrakvöld. „Þetta gerðist svolítið fyrir háfjöru. Áhöfn skipsins beið eftir flóði og sigldi af stað heim á leið þegar flæddi undan skipinu,“ segir Finnur Árnason, framkvæmdastjóri Þörungaverksmiðjunnar, í samtali við Skessuhorn.

Ástæða strandsins er sú að grynningarnar sem skipið lenti á voru ranglega merktar inn á kort sem siglt var eftir. „Breiðafjörður er erfiðasta siglingasvæði á landinu. Um borð í Gretti er þrautþjálfuð áhöfn með ný siglingakort, en þessi grynning var ekki á réttum stað á kortinu. Verið er að kortleggja fjörðinn núna og sjómælingaskipið Baldur kom á staðinn og staðfesti að grynningarnar væru á vitlausum stað á kortinu. Ef ekki hefði verið siglt eftir korti heldur ferlum í siglingatölvu skipsins hefði verið sveigt framhjá þessum grynningum,“ segir hann.

„En aðalatriðið er að það voru engin átök þegar þetta gerðist, allir heilir í áhöfninni og aldrei nein hætta á ferðum. Botninn reyndist auk þess vera mjúkur og skrúfan heil, engin merki um leka við fyrstu sín en ástand skipsins verður athugað betur. Skipið er einnig búið ákveðnum uggum, sitt hvorum megin við kjölinn eftir endilöngu skipinu þannig að ef það lendir á grynningum og þarf að bíða þá hefur það stuðning og leggst ekki á hliðina. Það var því bara beðið eftir flóðinu og siglt heim á leið,“ segir Finnur Árnason að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir