
Fleiri vilja í verknám
Samkvæmt tölum frá menntastofnun hafa rúmlega 3800 nemendur skilað inn umsóknum fyrir næsta skólaár. Allar líkur benda á fjölgun í verknámi og má greina að 17% þeirra sem sóttu um skólavist fyrir haustið hafi valið sér verknámsbrautir sem sitt fyrsta val.
Fyrir ári innrituðust 12% nemenda á verk- eða starfsnámsbrautir. Að þessu sinni eru rafiðngreinar og málm- og byggingargreinar vinsælastar. „Þetta eru ánægjulegar fréttir. Við höfum beitt okkur fyrir því að styrkja iðn-, verk- og starfsnám og kynna betur þá fjölbreyttu námskosti sem bjóðast á framhaldsskólastiginu,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.
Í fyrra innrituðust 65% nemenda á bóknámsbraut, 12% nemenda á verk- eða starfsnámsbrautir, 5% nemenda á listnámsbrautir, og 18% á almenna námsbraut eða framhaldsskólabraut.