Tvö slys í sama leiknum

Tvisvar þurfti að kalla eftir sjúkrabíl og lækni á knattspyrnuleik sem fram fór á Hellissandi í gær. Þar áttust við Snæfellsnes og Reynir/Víðir í 3. flokki karla. Tvö slys urðu og í báðum tilfellum voru leikmennirnir fluttir suður til Reykjavíkur til aðhlynningar á Landspítalanum. Mbl greindi frá.

Fyrst lentu tveir leikmenn í samstuði og var kallað á sjúkrabíl vegna þess. Skömmu síðar varð annað slys, þegar leikmaður hljóp á eftir boltanum og ætlaði að stöðva hann við endalínuna. Fór ekki betur en svo en að piltinum tókst ekki að stöðva sjálfan sig. Fór hann okkur skref út fyrir völlinn og endaði í hrauninu þar sem hann rak höfuðið í grjót.

Sjúkrabíllinn sem kallað var eftir vegna fyrra atviksins var á leiðinni í burtu þegar seinna atvikið átti sér stað. Var bílnum snúið við og læknirinn hlúði að leikmanninum sem lenti úti í hrauninu meðan beðið var eftir öðrum sjúkrabíl. Þyrla Landhelgisgæslunnar var síðan kölluð út vegna síðara atviksins og flutti hún leikmanninn til Reykjavíkur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir