Ólafsvíkurvöllur. Ljósm. þa.

Leikið á nýjum Ólafsvíkurvelli næsta miðvikudag

Sem kunnugt er var hafist handa við að leggja gervigras á Ólafsvíkurvöll síðasta haust, skömmu eftir að Íslandsmótinu í knattspyrnu lauk seint í septembermánuði. Vegna snjóþunga og kulda í vetur frá áramótum og síðan vætutíðar á vormánuðum hefur verkið ekki gengið jafn greiðlega fyrir sig og vonast hafði verið til. Nú er hins vegar farið að sjá fyrir endann á framkvæmdunum sem áætlað er að ljúki á næstu dögum. „Búið er að leggja allt grasið á völlinn og línurnar eru komnar. Akkúrat núna er verið að keyra gúmmíi í völlinn. Næst á dagskrá er að festa mörk og hornfána og að því loknu er aðeins smá frágangur eftir,“ segir Þorsteinn Haukur Harðarson, framkvæmdastjóri Víkings þegar rætt var við hann fyrr í vikunni.

Stefnt er að því að Víkingur Ó. spili fyrsta leikinn á nýja gervigrasinu í Ólafsvík á miðvikudaginn í næstu viku, 13. júní. Verður það fyrsti heimaleikur liðsins í sumar. „Loksins fáum við heimaleik,“ segir Þorsteinn. „Ferðalögin eru orðin full mikið af því góða. Liðið hefur spilað fimm leiki í deild og þrjá í bikar, samtals átta keppnisleiki og alla á útivelli,“ segir hann og bætir því við að á móti útileikjahrinunni í upphafi móts fái Ólafsvíkingar heimaleikjavertíð seinna í mótinu. „Frá því snemma í júlí og fram í miðjan ágúst er ekki nema einn leikur á útivelli, í bikarnum. Þannig að menn verða ekkert mikið að fara úr plássinu á þeim tíma,“ segir hann léttur í bragði.

 

Skref í rétta átt

Útiæfingar eru hafnar hjá Víkingi og verða á Hellissandsvelli þessa vikuna. Þorsteinn segir stefnt að því að hefja æfingar á nýja gervigrasinu á mánudaginn. „En ef allt gengur vel og veðurguðirnir brosa til okkar er aldrei að vita nema það geti gerst fyrr,“ segir hann. Til lengri tíma litið telur framkvæmdastjórinn víst að tilkoma gervigrassins muni hafa jákvæð áhrif á allt knattspyrnustarf í Ólafsvík. „Hægt verður að hefja æfingar fyrr á vorin og æfa lengra fram á veturna. Við vonumst til þess að það muni hafa góð áhrif á bæði fullorðna leikmenn sem og þá sem yngri eru, leikmenn sem eru vanir að spila bara á dúknum í íþróttahúsinu yfir vetrartímann. Að lengja tímabilið þar sem hægt er að æfa og spila úti á stórum vell mun skila sér í betri iðkendum og betri gæðum. Þetta er skref í rétta átt fyrir knattspyrnuna í Ólafsvík,“ segir Þorsteinn Haukur Harðarson að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir