Krílakot í Ólafsvík fjörutíu ára

Leikskólinn Krílakot í Ólafsvík verður 40 ára 19. ágúst í sumar. Þann dag árið 1978 var leikskolinn opnaður í húsnæðinu við Brúarholt. Leikskóli hafði þó verið rekin í Ólafsvík frá árinu 1972 en 7. febrúar það ár opnaði fyrsti leikskólinn sem starfræktur var af Kvenfélagi Ólafsvíkur. Höfðu kvenfélagskonur unnið að opnun hans frá árinu 1969 og var hann staðsettur í Gamla félagsheimilinu. Fyrsta fostöðukona hans var Gréta Jóhannesdóttir.

Haldið var upp á afmæli leikskólans nú á dögunum og því slegið saman við útskrift elstu barnanna á leikskólanum sem í haust hefja nám í 1. bekk grunnskólans. Við þetta tækifæri fékk leikskólinn góðar gjafir en foreldrafélagið gaf leikskólanum kofa til að hafa út í garði en sá gamli var ónýtur enda mikið notaður í gegnum árin. Auk þess gaf foreldrafélagið 280 þúsund krónur til leikfangakaupa fyrir hreyfileiki. Lionsklúbburinn Rán í Ólafsvík gaf einnig leikföng til hreyfileikja fyrir 150 þúsund krónur. Þá færði Snæfellsbær leikskólanum 100 þúsund krónur í tilefni afmælisins. Leikskólinn vinnur eftir efninu leikur að læra og munu leikföngin sem keypt hafa verið nýtast þar.

Núverandi leikskólastjóri er Ingigerður Stefánsdóttir. Hún veitti gjöfunum viðtöku og þakkaði þann hlýhug sem leikskólanum er sýndur núna sem og hingað til. Leikskólabörnin sungu fyrir gesti og þegar útskriftarhópurinn hafði tekið við höttunum, viðurkenningu og sjálfsmynd sem þau máluðu, var gestum boðið að skoða leikskólan og gæða sér á veitingum sem foreldrafélagið sá um.

Líkar þetta

Fleiri fréttir