Svipmynd af sýningunni. Ljósm. Daníel Þór Ágústsson.

Vorsýning FIMA toppar sig á hverju ári

Árleg vorsýning Fimleikafélags Akraness (FIMA) var haldin á laugardaginn þar sem allir iðkendur félagsins frá 5 ára aldri tóku þátt. Venja er fyrir því að hver sýning hafi ákveðið þema og söguþráð. Síðustu tvö ár hefur sagan verið samin af Stefaníu Sól Sveinbjörnsdóttur, þjálfara FIMA. Ísland var þema sýningarinnar í ár og farið var á milli sögu landsins, þjóðsagna og náttúruhamfara. „Þessi hópur toppar sig á hverju ári og var sýningin í ár alveg stórkostleg. Það er líka óhemju vinna og mikill metnaður á bakvið þetta,“ segir Sigrún Ríkharðsdóttir framkvæmdastjóri FIMA. Um 800 manns komu að sýningunni í ár og að sögn Þórdísar Þráinsdóttur yfirþjálfara tókst allt mjög vel til. Sýndar voru tvær sýningar og var uppselt á þær báðar. „Við viljum þakka öllum þeim sem aðstoðuðu okkur við uppsetninguna, áhorfendum, foreldrum, iðkendum og þjálfurum einstaklega vel fyrir,“ segir Þórdís.

Líkar þetta

Fleiri fréttir