Undirskriftalisti í Dölum marklaus

Formgalli var á undirskriftalista sem afhentur var sveitarstjórn Dalabyggðar 24. maí síðastliðinn og telst listinn því marklaus. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef sveitarfélagsins frá því í gær. Eins og greint var frá í Skessuhorni fékk sveitarstjórn listann afhentan fyrir fund sinn 24. maí. Höfðu 213 af 495 kjörgengum íbúum Dalabyggðar, 43%, lagt nafn sitt við ósk um almenna atkvæðagreiðslu vegna sölu á Laugum í Sælingsdal og jafnframt mótmæli við því að sveitarfélagið veitti seljendalán. Niðurstaða fundarins var að vísa afgreiðslu málsins til nýrrar sveitarstjórnar.

Nú hefur hins vegar komið á daginn að listinn telst marklaus, vegna formgalla við undirskriftasöfnunina. „Þar sem ekki var farið að reglugerð um undirskriftasafnanir vegna almennra atkvæðagreiðslna samkvæmt sveitarstjórnarlögum er listinn marklaus,“ segir á vef Dalabyggðar. Þar segir enn fremur að sveitarstjórn hafi ekki verið upplýst um undirskriftasöfnunina fyrr en sama dag og listinn var afhentur. Hvorki hafi verið tilkynnt hverjir væru ábyrgðarmenn söfnunarinnar né tryggt að allir íbúar vissu um undirskriftasöfnunina og gæfist kostur á að rita nafn sitt.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Gleðilegt sumar!

Skessuhorn óskar lesendum sínum, ungum sem gömlum, til sjávar og sveita, gleðilegs sumars.