Þrjú efstu sætin á Íslandsmeistaramóti eldsmiða. Frá vinstri: Ingvar Matthiasson, Róbert Daniel Kristjánsson og Beate Stormo. Ljósm. Pablo Von Eckardstein.

Róbert Daniel sigraði á Íslandsmeistaramóti eldsmiða

Um síðustu helgi var hin árlega eldsmíðahátíð haldin á Safnasvæðinu í Görðum á Akranesi. „Venju samkvæmt komu erlendir meistarar og miðluðu af þekkingu sinni. Þrír Svíar, Einn Norðmaður og tveir Þjóðverjar komu að utan auk fjölda Íslendinga sem komu víða af landinu. Í þetta skipti lærðu menn og konur að smíða ýmis verkfæri í smiðjuna,“ segir Guðmundur Sigurðsson formaður Íslenskra eldsmiða í samtali við Skessuhorn. „Fyrstu þrjá dagana smíðaði fólk verkfæri og forláta skilti á smiðjuna sem nú hangir þar og sveiflast eftir vindi. Á sunnudaginn var svo blásið til Íslandsmeistaramóts og voru hinir erlendu gestir dómarar,“ bætir Guðmundur við. Í ár var verkefnið að smíða eldskörung og var tíminn til þess tvær og hálf klukkustund. „Keppnin var hörð en drengileg. Róbert Daniel Kristjánsson frá Þingeyri sigraði að þessu sinni. Í öðru sæti var Beate Stormo frá Kristnesi og í því þriðja var Ingvar Matthiasson frá Akranesi. Þetta var í sjötta skipti sem keppnin er þreytt en þetta er í tíunda skipti sem hátíðin er haldin á Akranesi,“ segir Guðmundur að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir