Elín verður nýr stjórnarformaður Mjólkursamsölunnar

Elín M. Stefánsdóttir bóndi í Fellshlíð í Eyjafjarðarsveit hefur tekið við stjórnarformennsku hjá Mjólkursamsölunni og verður jafnframt fyrsta konan til þess að gegna hlutverki stjórnarformanns hjá fyrirtækinu. Elín og eiginmaður hennar Ævar Hreinsson búa að Fellshlíð í Eyjafjarðarsveit og hafa verið bændur þar síðan 2002. Hún hefur setið í stjórn Auðhumlu og Mjólkursamsölunnar síðastliðin 6 ár. Breytingar urðu nýlega á fulltrúum Auðhumlu í stjórn MS í kjölfar aðalfundar Auðhumlu, sem er aðaleigandi MS og hefur stjórn MS skipt með sér verkum. Ágúst Guðjónsson og Þórunn Andrésdóttir eru nýir aðalmenn í stjórn, en Þórunn var áður varamaður. Þau komu í stað Jóhannesar Torfasonar og Jóhönnu Hreinsdóttur, sem tók sæti í varastjórn. Þá var Björgvin R. Gunnarsson kosinn varamaður í stjórn í stað Sæmundar Jóns Jónssonar. Egill Sigurðsson, sem verið hefur stjórnarformaður frá árinu 2008, mun sitja áfram í stjórn fyrirtækisins, auk þess að sitja í stjórn nýs dótturfélags MS um erlenda starfsemi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir