Jóhann Óli og Guðrún með eintök af bókinni.

Bók um grasnytjar, þjóðtrú og sögu

Út er komin bókin Grasnytjar á Íslandi, þjóðtrú og saga, eftir Guðrúnu Bjarnadóttur. Bókin er skreytt ljósmyndum eftir Jóhanna Óla Hilmarsson, sem jafnframt er meðútgefandi að bókinni, og jurtateikningum Bjarna Guðmundssonar á Hvanneyri. Bókina er einnig gefin út í enskri útgáfu sem nefnist Plants of Iceland Traditional uses and folklore.

Í bókinni er fjallað um villtar jurtir sem hafa verið nytjaðar á Íslandi í gegnum tíðina en meðal annars nýttu menn jurtir til fóðurs, húsbygginga, litunar og lækninga. Ýmis þjóðtrú varð til um nytjarnar en á þessum tíma skildu menn ekki efnafræðina sem lá á bak við ýmsa virkni og kenndu oft um hindurvitni og göldrum. Fjallað er í bókinni um þjóðtrú og sagnir tengdar jurtunum. Þegar landnemarnir komu til Íslands frá Noregi og Bretlandseyjum á 9. öld þurftu þeir að treysta á íslenska flóru til margra nytja. Sumt þekktu þeir frá heimahögunum en annað var nýtt fyrir þeim. Guðrún segir að útgáfa bókarinnar eigi sér langan aðdraganda, eða átján ár.

Guðrún Bjarnadóttir er stundakennari í grasafræði og rekur jurtalitunarvinnustofuna Hespuhúsið í Andakíl í Borgarfirði. Hún hefur safnað að sér upplýsingum um grasnytjar og þjóðtrú tengda plöntum í mörg ár og nýtt við kennslu í grasafræði. Bókin er skrifuð upp úr MSc-ritgerð hennar um grasnytjar á Íslandi. Jóhann Óli Hilmarsson hefur myndað íslenska náttúru í áratugi, meðal annars plöntur, þótt hann sé kunnastur fyrir fuglamyndirnar sínar og skrif um fugla. Bókin er eins og fyrr segir skreytt teikningum eftir Bjarna Guðmundsson á Hvanneyri.

Tekið er á móti pöntunum á bókinni í síma 865-2910 eða á netfangið hespa@hespa.is

Líkar þetta

Fleiri fréttir