Ók á ofsahraða um Hvalfjörð

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu veitti ökumanni sem ók á ofsahraða eftirför í nótt. Maðurinn ók á allt að 170-190 km hraða á klukkustund og er grunaður um að hafa verið undir áhrifum fíkniefna. Rúv greinir frá. Eftir nokkra eftirför í höfuðborginni hélt ökumaðurinn út fyrir borgarmörkin og náðist loks að stöðva hann við Meðalfellsveg í Hvalfirði.

Eftirförin hófst þegar lögregla vildi ná tali af ökumanninum á Miklubrautinni í nótt.  Ökumaðurinn sinnti ekki stöðvunarskildu heldur steig enn fastar á bensíngjöfina og reyndi að komast undan. Lögreglan ók þá á eftir ökumanninum upp Ártúnsbrekku, eftir Vesturlandsvegi þar til ökumaðurinn sneri við hjá versluninni Bauhaus og ók vestur eftir Vesturlandsvegi og Miklubraut. Hann beygði svo inn Kringlumýrarbraut og fór umhverfis Kringluna, eftir Listabraut og Háaleitisbraut og til austurs á Miklubraut. Því næst keyrði ökumaðurinn aftur upp Ártúnsbrekku og eftir Vesturlandsvegi í gegnum Mosfellsbæ. Hann beygði svo inn Þingvallarveg og fór um Kjósarskarð yfir í Hvalfjörð þar sem hann var loks stöðvaður við Meðalfellsveg. Hann var þá handtekinn og vistaður í fangaklefa í nótt.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir