Von er á um 1500 keppendum frá 36 aðildarfélögum á eitt stærsta pollamót landsins um næstu helgi. Ljósm. úr safni/bþb

Norðurálsmótið verður um næstu helgi

Um næstu helgi, dagana 8. – 10. júní, verður hið árlega Norðurálsmót í knattspyrnu haldið á Akranesi. Mótið er eitt stærsta pollamót landsins og ætlað drengjum sem spila með 7. flokki, á aldrinum sex til átta ára. Að sögn Huldu Birnu Baldursdóttur framkvæmdastjóra Knattspyrnufélags ÍA hefur undirbúningur fyrir mótið undanfarið gengið mjög vel og er allt að verða klárt fyrir komu gestanna. Hún segir dagskrá mótsins vera með hefðbundnu sniði í ár og byrjar með að keppendur koma saman við bæjarskrifstofu Akraneskaupstaðar á föstudagsmorgninum um klukkan 10:30. Þaðan verður gengið saman í skrúðgöngu upp að Akraneshöllinni þar sem mótið verður formlega sett klukkan 11:30.

Á meðan á mótinu stendur má gera ráð fyrir að íbúafjöldi á Akranesi nánast tvöfaldist. „Við eigum von á um 1500 keppendum frá 36 aðildarfélögum en það er svipaður fjöldi og á síðasta ári. Með hverjum keppanda má gera ráð fyrir að komi foreldrar og jafnvel systkini eða aðrir ættingjar. Það má því alveg búast við um fimm til átta þúsund gestum í bæjarfélaginu þessa helgi,“ segir Hulda Birna. Sú breyting hefur verið gerð í ár að spilaður verður svokallaður fimm manna bolti og verða liðin því fleiri og fámennari en áður. „Liðin í ár verða um 230 talsins en með því að hafa færri í liðunum erum við að koma til móts við fámennari félög sem hafa ekki alltaf náð tilsettum fjölda til að vera með lið. Það verða því fleiri aðildarfélög með í ár og með þessu fyrirkomulagi fær líka hver strákur að spila meira en áður,“ bætir hún við.

 

Búin að panta góða veðrið

Eftir að mótið hefur verið sett verður strax byrjað að spila fram eftir degi. Klukkan 18:00 á föstudeginum mætir svo meistaraflokkur ÍA liði ÍR á Akranesvelli og verður öllum keppendum Norðurálsmótsins boðið að horfa á. „Þeir strákar frá ÍR sem verða á Norðurálsmótinu munu leiða leikmenn síns liðs inn á völlinn og strákarnir frá ÍA leiða leikmenn síns liðs. Á laugardegi heldur mótið svo áfram. Frítt verður í sund og hoppukastalar og leikjaland sett upp á svæðinu,“ segir Hulda Birna.

Hún hvetur alla þjónustuaðila á Akranesi að hafa í huga hversu mikill fjöldi gesta verður í bænum þessa daga og vera vel undirbúnir til að taka á móti þeim. „Í fyrra voru ekki allir nógu vel undirbúnir. Það kláruðust til dæmis vörur úr búðum og kom það sér illa fyrir marga gesti. Ég vil því bara minna verslunarrekendur á að vera undir það búnir að taka á móti þessum fjölda gesta í bænum um helgina,“ segir Hulda Birna. „Einnig vil ég koma því á framfæri að öll hjálp er vel þegin við undirbúning og á mótinu sjálfu. Á bakvið svona stóran viðburð eru mörg handtök og ef einhver vill aðstoða er engin skortur á verkefnum. Það er hægt að hafa samband við okkur hjá Knattspyrnudeild ÍA og við þiggjum alla aðstoð með þökkum,“ segir hún en hægt er að hafa samband við Huldu Birnu á netfangið hulda@kfia.is. „Við erum svo búin að panta góða veðrið og treystum því að það verði alla mótsdagana,“ segir hún að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Látrabjarg er nú friðlýst

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur skrifað undir plagg til friðlýsingar Látrabjargs. Viðstaddir undirskriftina voru fulltrúar Bjargtanga, félags land-... Lesa meira