Gestir skoða síurnar í stöðinni. Ljósm. glh.

Fráveitustöðin tekin í notkun í Borgarnesi

Það var léttskýjað og mild hafgola síðdegis í gær þegar Veitur buðu Borgnesingum til opnunarhátíðar við nýju fráveitustöðina í Brákarey. Gestum var boðið að skoða stöðina og þiggja veitingar. Framkvæmdir við nýja fráveitu hófust árið 2006 og hafa staðið í rúman áratug en töfðust um hríð vegna gjaldþrots bankanna og afleiðinga þess. Í dag er stöðin komin á fullan skrið og um leið kemst Borgarbyggð í hóp þeirra sveitafélaga þar sem allir helstu byggðarkjarnar uppfylla kröfur um skólphreinsun. Nú þegar eru fjórar lífrænar hreinsistöðvar Veitna og eru þær á Hvanneyri, Varmalandi, Reykholti og Bifröst. Auk þeirra framkvæmda í Borgarnesi voru lögð ný stofnræsi um bæinn og tíu dælubrunnar sem dæla skólpi í hreinsistöðina frá gömlu útrásunum, sem voru í fjöruborðinu. Frá stöðinni liggur 700 metra löng lögn í sjó fram.

„Þetta er fagnaðardagur í fráveitumálum hér í Borgarnesi,“ sagði Gunnlaugur A. Júlíusson, sveitastjóri Borgarbyggðar, í ávarpi sem hann flutti. Inga Dóra Hrólfsdóttir, framkvæmdarstjóri Veitna, hélt einnig tölu en hún líkti þessu langa ferli við fíl. „Besta leiðin til að borða fíl er að taka einn bita í einu.“ Hún nefndi einnig að nú yrði fallega strandlengjan við bæinn mun vistvænni. Ásamt því að fara yfir sögu framkvæmda þá brýndi hún fólk á mikilvægi góðrar umgengni svo stöðvarnar skili þeim árangri í umhverfismálum sem að er stefnt. Að því búnu var viðstöddum boðin tregt að gjöf sem á að hjálpa við að aðskilja olíur frá niðurföllum því þær fara illa í síurnar og getur sömuleiðis verið kostnaðarsamt að hreinsa úr skólpinu.

Eftir athöfn var gestum boðið upp á samlokur og sætabrauð og drykki í Grímshúsi sem er staðsett við hlið nýju dælustöðvarinnar. Þar gat fólk sest niður og skoðað myndir sem birtust á skjávarpa frá framkvæmdum síðustu ára. Nýja dælustöðin er sjálfstýrð en vöktuð frá Reykjavík.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Látrabjarg er nú friðlýst

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur skrifað undir plagg til friðlýsingar Látrabjargs. Viðstaddir undirskriftina voru fulltrúar Bjargtanga, félags land-... Lesa meira