
Þriggja flokka meirihlutasamstarf komið á í Borgarbyggð
Í gærkvöldi var skrifað undir málefnasamning Sjálfstæðisflokks, Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs og Samfylkingar og óháðra í Borgarbyggð. „Helstu áherslur í málefnasamningi flokkanna eru að bæta þjónustu og búsetuskilyrði í Borgarbyggð auk þess að byggja upp mikilvæga innviði og mannauð. Gott samstarf allra flokka í sveitarstjórn, vönduð stjórnsýsla og áframhaldandi ábyrgur rekstur mun vera í forgrunni á komandi kjörtímabili. Gengið verður til samninga við Gunnlaug A Júlíusson núverandi sveitarstjóra um áframhaldandi samstarf,“ segir í tilkynningu vegna samstarfs flokkanna.
„Viðræður flokkanna gengu mjög vel og ekki komu upp nein ágreiningsmál í ferlinu.“ Búið er að skipta helstu verkefnum á milli flokkanna. Lilja Björg Ágústsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokks verður forseti sveitarstjórnar og Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir oddviti VG verður formaður byggðarráðs. Þá fellur formennska í umhverfis- og skipulagsnefnd til VG, formennska í fræðslunefnd til Samfylkingarinnar og óháðra og formennska í velferðarnefnd til Sjálfstæðisflokks. Málefnasamningur verður lagður fyrir fyrsta fund nýkjörinnar sveitarstjórnar.