Fráveitustöð í Borgarnesi tekin í notkun í dag

Í dag klukkan 17 munu Veitur formlega taka í notkun nýja hreinsistöð fráveitu í Borgarnesi. Borgarbyggð kemst þar með í hóp þeirra sveitarfélaga þar sem allir stærstu byggðarkjarnar uppfylla kröfur um skólphreinsun því fyrir eru fjórar lífrænar hreinsistöðvar Veitna í uppsveitunu. Opnun stöðvarinnar markar einnig tímamót í fráveiturekstri Veitna því þar með lýkur átaki í uppbyggingu nýrra fráveitna fyrirtækisins sem náði til Akraness og Kjalarness auk Borgarbyggðar. Átakið hófst fyrir rúmum áratug en tafðist um hríð vegna efnahagshrunsins.

Af þessu tilefni bjóða Veitur Borgnesingum til opnunarhátíðar við nýju stöðina klukkan 17 í dag. Gestum gefst kostur á að skoða mannvirkið og þau Inga Dóra Hrólfsdóttir, framkvæmdastjóri Veitna, og Gunnlaugur A. Júlíusson sveitarstjóri Borgarbyggðar, flytja ávörp. Boðið verður upp á kaffi og með því.

Nýja hreinsistöðin stendur í Brákarey, vestast í bænum. Í henni eru hreinsuð öll gróf efni úr skólpinu og sandur og fita síuð frá því. Frá stöðinni liggur 700 metra löng lögn í sjó fram. Auk þeirra mannvirkja voru einnig lögð ný stofnræsi í bænum og tíu dælubrunnar sem dæla skólpi í hreinsistöðina frá gömlu útrásunum, sem voru í fjöruborðinu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir