Rósa Björk Árnadóttir segir það hafa verið mikið gæfuspor að flytja til Akraness. Ljósm. arg.

Vill styrkja sjálfsmynd ungra stúlkna

Rósa Björk Árnadóttir ætlar að halda sjálfstyrkingarnámskeið fyrir stelpur á aldrinum 10-12 ára á Akranesi helgina 9.-10. júní. Á námskeiðinu mun hún kenna stelpum öndunar-, jóga- og hugleiðsluæfingar sem geta hjálpað þeim með kvíða og streitu. Námskeiðið er ætlað til að fá stelpur til að skilja mikilvægi þess að elska sig og bera jafn mikla virðingu fyrir sjálfum sér og öðru fólki jafnt og umhverfinu. „Ég vil hjálpa þessum stelpum að byggja upp sjálfstraust og kenna þeim að leiða hjá sér neikvæðni frá öðrum og neikvæðni þeirra í eigin garð. Á námskeiðinu verður heildrænt farið í hvernig er hægt að bera ábyrgð á heilsu sinni og líðan. Farið verður yfir mikilvægi þess að borða rétt og unnið með hugarfar og líkamsvitund. Stelpurnar kynnast jóga og áhrifum þess. Þetta er í raun einfalt, ég ætla að tala við stelpurnar um allt sem ég hefði viljað vita þegar ég var á þeirra aldri. Því miður byrja stelpur oft að vera óöruggar með sjálfa sig á þessum aldri og byrja að hugsa neikvætt um sjálfa sig, t.d. varðandi stærð magasvæðis. Þetta eru skaðlegar hugsanir sem geta valdið mikilli vanlíðan. Ég vil hjálpa þessum stelpum að skilja að þessir hlutir skipta ekki máli og hjálpa þeim að elska sig sjálfar,“ segir Rósa Björk.

 

Mikið gæfuspor að flytja á Akranes

Rósa Björk er menntaður heilsumarkþjálfi frá Bandaríkjunum, Sat Nam Rassaya hugleiðsluheilari, talnaspekingur og hálfnuð með OPJ orkupunktajöfnuð. „Ég er einnig lærður krakka jógakennari bæði hjá Childplay Yoga og einnig hjá Little Flower Yoga. Núna stunda ég jógakennaranám í Kundalini jóga. Ég hef einnig setið mörg minni námskeið í tengslum við jóga, heilsu og vellíðan,“ segir Rósa Björk.

Hún flutti til Akraness frá Reykjavík árið 2015 ásamt Ívani Þór syni sínum og segir hún það hafa verið mikið gæfuspor. Hún á langa áfallasögu en allt frá því Rósa Björk var barn hafa áföll dunið yfir hana. Í kjölfarið hafði hún þróað með sér félagsfælni og kvíða. Í lok árs 2015 ákvað hún að reyna að vinna í andlegri heilsu sinni og komst hún að í endurhæfingu HVER á Akranesi. „Það varð umbreyting í lífi mínu árið 2015 sem leiddi til mikillar vakningar. Ég stunda daglega hugleiðslu og árið 2016 fann ég hamingjuna í fyrsta sinn. Ég finn það sterkt í hjarta mér að ég vil deila til barna og að þau læri hversu fallegt lífið er. Þroski manneskjunnar er það sem á huga minn allan og vil ég svo sannarlega deila því til ungra stúlkna að þær eru dýrmætar og fallegar og eiga það besta skilið. Ég á HVER og samfélaginu á Akranesi mikið að þakka. Ég hef orðið fyrir mikilli hugarfarsbreytingu og fólkið og starfsemin hjá Hver hefur gefið mér alveg nýtt líf,“ segir hún og heldur áfram. „Ég vildi þakka fyrir mig og gera eitthvað fyrir samfélagið á Akranesi áður en ég flyt héðan í júní og ákvað ég því að halda þetta námskeið.“

Upplýsingar um námskeiðið má finna á Facebook viðburðinum „Leiðin að kjarnanum“ og einnig er bægt að hafa samband við Rósu Björk varðandi námskeiðið á netfangið heilsaoghugur@gmail.com.

Líkar þetta

Fleiri fréttir