„Munum veita nýjum meirihluta gott aðhald“

Eins og greint var frá í frétt hér á vefnum í gærkvöldi er búið að skrifa undir meirihlutasamstarf Samfylkingar og Framsóknarflokks með frjálsum á Akranesi. Þar með situr Sjálfstæðisflokkurinn með fjóra bæjarfulltrúa í minnihluta. Rakel Óskarsdóttir er oddviti Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn. Hún kveðst í samtali við Skessuhorn undrast þann hátt sem Samfylking og Framsókn hafi valið að hafa við myndun meirihluta og samráðsleysi við fjögurra manna minnihlutaflokk í bæjarstjórn. „Fyrir fjórum árum þegar Sjálfstæðisflokkur myndaði meirihluta með fulltrúa Bjartrar framtíðar, var frá fyrsta degi rætt við fulltrúa allra flokka sem náðu kjöri í bæjarstjórn. Það er mikill munur á hvernig verðandi meirihluti nú hefur nálgast verkefni sitt. Fyrir fjórum árum lögðum við mikla áherslu á viðræður og gott samstarf allra þegar meirihlutinn var myndaður. Allt annar bragur er á þessu núna. Ég er kölluð til viðræðna við væntanlegan meirihluta á sjötta degi viðræðna þeirra, þegar þau höfðu í raun lokið meirihlutamynduninni. Okkur var þá boðið að taka varaformennsku í skipulags- og umhverfisráði enda vita þessir flokkar að þar bíða stór og erfið úrlausnarefni. Ástæðan er ekki sú að þau vilji vera svona góð við okkur. Ástæðan er sú að Samfylking og Framsókn hafa hafa nauman meirihluta í bæjarstjórn og það er því áskorun og mikil vinna að manna bæði formennsku og varaformennsku í fastanefndum og ráðum. Samkvæmt bæjarmálasamþykkt skulu aðalfulltrúar í bæjarstjórn gegna þessum embættum,“ segir Rakel.

„Bæjarmálasamþykkt Akraneskaupstaðar á að geta staðið óbreytt óháð fjölda bæjarfulltrúa í meirihluta hverju sinni. Við munum því skoða vel hvaða breytingar núverandi meirihluti vill gera á bæjarmálasamþykkt Akraneskaupstaðar. Í það minnsta munum við taka hlutverk okkar sem minnihluti alvarlega og veita nýjum meirihluta gott aðhald,“ segir Rakel Óskarsdóttir.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Látrabjarg er nú friðlýst

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur skrifað undir plagg til friðlýsingar Látrabjargs. Viðstaddir undirskriftina voru fulltrúar Bjargtanga, félags land-... Lesa meira