Frá undirritun meirihlutasamstarfsins í kvöld. Sitjandi eru oddvitar flokkanna; Valgarður Lyngdal Jónsson frá Samfylkingunni og Elsa Lára Arnardóttir frá Framsókn og frjálsum. Efri röð f.v. Bára Daðadóttir, Gerður J Jóhannsdóttir og Ragnar Sæmundsson.

Skrifað undir meirihlutasamstarf á Akranesi

Í kvöld var skrifað undir meirihlutasamstarf Samfylkingar og Framsóknar með frjálsum í bæjarstjórn Akraneskaupstaðar. Flokkarnir hafa fimm menn í meirihluta en Sjálfstæðisflokkur fjóra í minnihluta. Í upphafi sáttmála flokkanna segir m.a: „Lögð verður áhersla á gott samstarf allra flokka í bæjarstjórn, vandaða og faglega stjórnsýslu og þróun á virku íbúalýðræði. Áfram verður unnið að því að styrkja fjárhagsstöðu bæjarsjóðs með það að markmiði að veita íbúum á Akranesi góða þjónustu í hvívetna.“

Þau Valgarður Lyngdal Jónsson oddviti Samfylkingar og Elsa Lára Arnardóttir oddviti Framsóknar og frjálsra segja að í þessu felist að framkvæmt verður án þess að auka skuldir bæjarsjóðs, en áhersla lögð á að verja og efla þá þjónustu sem bæjarfélagið veitir. Þau segja viðræður flokkanna hafa gengið mjög vel og enginn ásteitingarsteinn orðið á vegi þeirra í viðræðunum sem samtals tóku tæpa viku. Aðspurð segja þau að búið sé að skipta helstu verkefnum milli flokkanna. Valgarður verður forseti bæjarstjórnar og Elsa Lára formaður bæjarráðs. Samfylking mun fara með formennsku í skóla- og frístundaráði og velferðar- og mannréttindaráði, en Framsókn mun fara með formennsku í skipulags- og umhverfisráði. Skipan í aðrar nefndir hefur ekki verið ákveðin. Aðspurð um hvort Sjálfstæðismönnum í minnihluta hafi boðist að taka formennsku eða varaformennsku í nefndum segja þau að bæjarfulltrúar hans hafi fengið tilboð þar að lútandi, en ekki svarað því boði.

Fyrstu fundur nýrrar bæjarstjórnar verður reglubundinn fundur samkvæmt dagskrá 12. júní næstkomandi og gert ráð fyrir öðrum fundi áður en bæjarstjórn fer í sumarleyfi í júlí. Að lokum segja þau Valgarður og Elsa Lára að engar stórar strúktur breytingar verði gerðar fyrst í stað í tíð nýs meirihluta og binda vonir við gott samstarf flokkanna, bæjarbúum til heilla. Þau fagna því bæði að búið er að ganga frá samkomulagi um ráðningu Sævars Freys Þráinssonar í starf bæjarstjóra.

Hér að neðan má lesa málefnasamning flokkanna í heild sinni:

 

Málefnasamningur

Samfylkingarinnar og Framsóknar og frjálsra

vegna meirihlutasamstarfs í bæjarstjórn Akraness

kjörtímabilið 2018-2022

Lögð verður áhersla á gott samstarf allra flokka í bæjarstjórn, vandaða og faglega stjórnsýslu og þróun á virku íbúalýðræði. Áfram verður unnið að því að styrkja fjárhagsstöðu bæjarsjóðs með það að markmiði að veita íbúum á Akranesi góða þjónustu í hvívetna.

Markmið okkar á kjörtímabilinu eru:

Velferð

Gott verði að búa á Akranesi frá vöggu til grafar.  Við viljum:

 • Auka úrræði til að virkja fólk til frumkvæðis, sjálfshjálpar og atvinnuþátttöku.
 • Standa vörð um starfsemi Heilbrigðisstofnunar Vesturlands og vinna með stjórnendum hennar við að styrkja og auka þjónustu stofnunarinnar.
 • Halda áfram uppbyggingu á starfsemi Höfða í samráði við alla hagsmunaaðila.
 • Vinna að uppbyggingu leiguíbúða fyrir einstaklinga og fjölskyldur.
 • Setja skýra stefnu í aðgengismálum fólks með skerta hreyfigetu.
 • Tryggja að öryrkjar og fólk með fötlun fái þá þjónustu sem þeir eiga rétt á samkvæmt lögum.
 • Endurskoða reglur kaupstaðarins um ferðaþjónustu fatlaðra, með það að markmiði að bæta þjónustuna.
 • Setja reglur um NPA og bjóða þá þjónustu sem raunhæfan valkost fyrir fatlaða íbúa á Akranesi.
 • Stefna að opnun skammtímavistunar fyrir fötluð börn á Akranesi.

Aldursvænt samfélag

Gott verði að eldast á Akranesi.  Við viljum:

 • Stuðla að heilsueflingu eldra fólks, í samræmi við markmið um heilsueflandi samfélag og tryggja gott aðgengi að íþróttaaðstöðu.
 • Klára uppbyggingu þjónustu- og félagsmiðstöðvar fyrir eldri borgara á kjörtímabilinu.
 • Að eldri borgurum sé gert kleift að búa sem lengst á eigin heimili og fái þann stuðning sem þarf hverju sinni.
 • Vinna að uppbyggingu á fjölbreyttum búsetuúrræðum fyrir eldra fólk.
 • Mæta ólíkum þörfum fólks við starfslok til að tryggja áframhaldandi virka þátttöku í samfélaginu.

Menntamál

Að skólar Akraness verði ávallt í fremstu röð.  Við viljum:

 • Vinna markvisst að því að skólastarf á Akranesi verði áfram í fremstu röð, ekki síst í ljósi þeirra þjóðfélagsbreytinga sem vænta má í atvinnu- og menntamálum vegna örra tæknibreytinga.
 • Halda íbúaþing um menntamál.
 • Auka stuðning og bæta vinnuaðstæður starfsmanna og nemenda í leik- og grunnskólum.
 • Hefja undirbúning á byggingu nýs leikskóla í samráði við hagsmunaaðila.
 • Kanna möguleika á að gerast tilraunasveitarfélag í rekstri framhaldsskóla.
 • Marka skólastefnu fyrir 16-18 ára nemendur, í samvinnu við FVA.

Íþrótta- og æskulýðsmál

Lögð verður áhersla á að stuðla að heilsueflingu íbúa á öllum aldri í samræmi við markmið um heilsueflandi samfélag.  Forvarnargildi íþrótta og tómstunda er óumdeilt og gott samstarf við íþrótta- og tómstundafélög er mikilvægt svo það gangi eftir.  Markviss uppbygging íþrótta- og frístundaaðstöðu er stór þáttur í því.  Við viljum:

 • Vinna stefnumörkun í íþrótta- og æskulýðsmálum, út frá markmiðum um heilsueflandi samfélag.
 • Gera langtímaáætlun um uppbyggingu íþróttamannvirkja í virkri samvinnu við íþróttahreyfinguna og fylgja henni eftir með raunhæfri framkvæmdaáætlun.
 • Ljúka uppbyggingu fimleikahúss við Vesturgötu.
 • Tryggja frístundaheimilum góða aðstöðu og mæta gæðaviðmiðum um starfsemi þeirra.
 • Ganga frá samningum við Íþróttabandalag Akraness um aðstöðu og starfsemi.

Umhverfismál

Akraneskaupstaður verði framúrskarandi í umhverfismálum og umhverfisvitund.  Við viljum:

 • Auka umhverfisvitund með aukinni fræðslu og leiðbeiningum um hvernig megi stuðla að endurvinnslu og nýtingu hráefna.
 • Draga úr plastnotkun.
 • Setja upp grenndarstöðvar fyrir flokkaðan úrgang.
 • Auka flokkunarmöguleika og bæta við lífrænni flokkun.
 • Stofnanir bæjarins verði í fararbroddi í flokkun sorps.

Skipulagsmál

Að Akranes verði fallegur bær og bæjarbúar fái að taka þátt í forgangsröðun verkefna.  Við viljum:

 • Horfa til framtíðar í skipulagsmálum, marka heildarsýn og setja markmið um hvernig við viljum sjá Akranes árið 2050.
 • Miða allar skipulagsákvarðanir dagsins í dag við þessa heildarsýn og markmið.
 • Gera langtímaáætlun um endurnýjun slitlags á götum bæjarins, byggða á þarfagreiningu og íbúar hafi aðgang að upplýsingum um hana.
 • Gefa íbúum möguleika á að taka ákvörðun um forgangsröðun verkefna með rafrænni kosningu.
 • Halda áfram uppbyggingu göngu- og hjólreiðastíga, með þarfir hjólandi, gangandi og hreyfihamlaðra í forgangi.
 • Bæta öryggi vegfarenda á Akranesi.
 • Stuðla að eflingu slökkviliðs í samstarfi við Hvalfjarðarsveit og athafnasvæðið á Grundartanga.

Samgöngur

Öryggi vegfarenda og þarfir notenda verði í fyrirrúmi í forgangsröðun samgönguverkefna.  Við viljum:

 • Vinna áfram að framgangi Samgönguáætlunar Vesturlands 2017-2029 í samvinnu við nágrannasveitarfélög innan SSV.
 • Knýja á um vegbætur á Kjalarnesi án tafar.
 • Tala skýrt gegn hugmyndum um sérstaka vegtolla á notendur Vesturlandsvegar.
 • Að eftir afhendingu Hvalfjarðarganga til ríkisins verði öryggi vegfarenda tryggt.
 • Hefja ferjusiglingar að nýju milli Akraness og Reykjavíkur.

Menningar og safnamál

Að menningarlíf á Akranesi verði fjölbreytt.  Við viljum:

 • Auka opnunartíma bókasafnsins.
 • Standa myndarlega að föstum viðburðum og menningarhátíðum bæjarins og upplýsa og hvetja bæjarbúa til aukinnar þátttöku í þeim.
 • Skapa vettvang til menningarþátttöku unga fólksins.
 • Fylgja menningarstefnu bæjarins eftir með aðgerðaáætlun.
 • Gera styrkjamál aðgengilegri á vef bæjarins og fjölga úthlutunartímabilum.
 • Styrkja menningarlífið í bænum með því að tiltækt sé húsnæði fyrir listamenn, leikhópa og tónlistarfólk til að vinna að listsköpun og kynna sig og verk sín.
 • Nýta Tónberg betur sem vettvang menningar og lista í góðu samráði við starfsmenn Tónlistarskólans.
 • Styðja enn betur við það metnaðarfulla starf sem unnið er á safnasvæðinu.
 • Bjóða upp á Skagapassann, sem veitir aðgang með afslætti að t.d. söfnum, sundlaugum og viðburðum.

Atvinnumál

Lögð verður áhersla á að fjölga atvinnutækifærum með því að efla atvinnulíf á Akranesi, hvetja til nýsköpunar og þróunar og auka fjölbreytni atvinnulífs.  Við viljum:

 • Endurskoða atvinnumálastefnu Akraneskaupstaðar, þar sem meðal markmiða verði að stuðla að nýsköpun, fjölbreytileika og jafnframt að efla þær atvinnugreinar sem fyrir eru á Akranesi.
 • Setja á fót atvinnumálanefnd til að vinna að markaðsmálum og eflingu atvinnulífs á Akranesi og skapa vettvang til umræðu um atvinnumál.
 • Ráða verkefnastjóra í atvinnumálum.
 • Gæta vel að framboði og fjölbreytni lóða og húsnæðis fyrir atvinnustarfsemi á Akranesi.
 • Stuðla að uppbygginu á hafnarsvæði.
 • Stuðla að eflingu atvinnusvæðisins við Grundartanga í takt við markmið Þróunarfélagsins, um að efla og bæta skilyrði fyrir stofnun og rekstur fyrirtækja á svæðinu, með áherslu á umhverfisvæna starfsemi og bætta nýtingu hráefna.
 • Störf án staðsetningar.

Ferðamál

Efla þarf ferðaþjónustu og auglýsa Akranes sem áhugaverðan kost í þeim efnum.  Við viljum:

 • Að Akraneskaupstaður setji sér stefnu í ferðamálum.
 • Tengja saman ferðaþjónustu, útivist og menningu.
 • Bæta upplýsingagjöf til ferðamanna.
 • Vekja athygli á Akranesi sem góðum kosti fyrir fyrirtæki sem starfa í ferðaþjónustu.
 • Vinna að því að styðja við áfangastaðaáætlun DMP á Vesturlandi um forgangsröðun áherslna um hótel, samgöngur, merkingar og um samvinnu milli sveitarfélaga og ferðaþjónustuaðila.

Stjórnsýsla

Akraneskaupstaður leggi áherslu á ábyrga og gagnsæja stjórnsýslu, að jafnræði ríki og allir hafi sömu möguleika til að njóta þjónustu.  Við viljum:

 • Auka íbúalýðræði, m.a. með skoðanakönnunum og aukinni nýtingu á vefgátt bæjarins.
 • Stuðla að stofnun hverfaráða og skilgreina hlutverk þeirra.
 • Halda íbúafundi árlega um málefni bæjarins.
 • Nýta tækni í opinberri stjórnsýslu til að einfalda ferla og auka skilvirkni.
 • Að jafnréttisáætlun verði unnin.
 • Vinna að aðgerða – og viðbragsáætlun sem snýr að kynbundnu ofbeldi og vinna eftir þeirri áætlun.
 • Gera upplýsingar um rekstur bæjarins aðgengilegar með opnu bókhaldi.
 • Gæta aðhalds í rekstri og nýta möguleika sem skapast til að draga úr álögum á íbúa og auka þjónustu við þá.
Líkar þetta

Fleiri fréttir