Tekið á því á á Akratorgi

Segja má að upphaf hátíðarhalda á Akranesi í tilefni sjómannadags helgarinnar, hafi verið í morgun. Þá mættu krakkar af leikskólanum Teigaseli á Akratorg. Þar færði Verkalýðsfélag Akraness krökkunum harðfisk, farið var í pokahlaup og í reiptog. Á meðfylgjandi mynd er tekið á því í reiptoginu. Krakkarnir fóru í göngutúr að Akratorgi þar sem var sungið og farið í fleiri leiki.

Akranesleikarnir í sundi hefjast í dag, föstudag, en þeir verða haldnir í Jaðarsbakkalaug og eru á fjórða hundrað keppendur skráðir til leiks.

Dagskráin á sunnudaginn hefst með minningarstund við minnismerki látinna sjómanna í kirkjugarðinum, áður en haldið verður til sjómannadagsmessu í Akraneskirkju. Dýfingakeppni Sjóbaðsfélags Akraness verður rétt utan við Langasand og hefst kl. 11 á sunnudaginn. Dorgveiðikeppni verður á milli klukkan eitt og tvö á Sementsbryggjunni. Þá verður fjölskylduskemmtun á hafnarsvæðinu milli klukkan tvö og fjögur þar sem ýmislegt skemmtilegt verður í boði m.a. róðrarkeppni, hoppukastali, kassaklifur og hægt að skoða fjölbreyttar fiskitegundir. Mönsvagninn verður á svæðinu að selja fisk og franskar og Slysavarnadeildin Líf verður með árlega kaffisölu í Jónsbúð. Vonast er til að þyrla Landhelgisgæslunnar láti líka sjá sig. Einnig verður frítt í Akranesvita í tilefni dagsins. Þar verður sýning opnuð á jarðhæð með upplýsingum um alla vita á Akranesi í tilefni 100 ára afmæli gamla vitans auk þess sem málverkasýning verður á annarri hæð.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Mottumars er hafinn

Átaki Krabbameinsfélagsins, Mottumars, var formlega hrundið af stað síðastliðinn föstudag. Átakið snýst um, eins og landsmenn þekkja, krabbamein í körlum.... Lesa meira