Sjómenn í Grundarfirði heimsóttu leikskólabörnin

Í morgun mættu sjómenn í Grundarfirði galvaskir á leikskólann Sólvelli. Sýndu þeir börnunum ýmsa fiska úr sjónum og gáfu þeim einnig harðfisk. Þá var slegið upp reiptogkeppni. Börnin tóku afar vel í heimsóknina enda nýnæmi fyrir mörg þeirra að sjá ólíka fiska, fá að snerta og spjalla við gestina. Heimsóknin á Sólvelli er fastur liður í dagskrá sjómannadagshelgarinnar í Grundarfirði.

Síðar í dag verður golfmót í boði GRun og á morgun verður krakkasprell í vélsmiðju Grundarfjarðar. Eftir hádegið verður sprell á bryggjunni þar sem hægt verður að fara í siglingu og sjá þyrlu Landhelgisgæslunnar. Þegar komið er í land verða grillaðar pylsur á bryggjunni og keppt um Pétursbikarinn í reiptogi svo eitthvað sé nefnt. Eftir dagskránna verður haldið á fótboltavöllinn þar sem sjómenn mæta sjómannskonum. Sjómennirnir verða klæddir í stígvél og vinnubuxurnar sínar í leiknum. Á sunnudeginum verður messa í Grundarfjarðarkirkju og blómsveigur lagður að minnismerki sjómanna. Hátíðinni lýkur svo með kaffisölu kvenfélagsins Gleym mér ey í samkomuhúsinu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir