
Fyrsta skemmtiferðaskipið til Grundarfjarðar
Í morgun kom fyrsta skemmtiferðaskip sumarsins til Grundarfjarðar. Skipið heitir Seabourn Quest og sigldi það inn fjörðinn í blíðskaparveðri; logni og sólskini. Skipið er 38.348 tonn að stærð og rétt tæplega 200 metra langt. Um borð eru 400 ferðamenn og fjöldi auk þess í áhöfn. Skip þetta býður eingöngu upp á dýrar lúxusferðir.
Í sumar eru alls 26 skemmtiferðaskip væntanleg til Grundarfjarðar en næsta skip kemur 24. júní og það síðasta er bókað til hafnar 1. september. Nánara yfirlit yfir skipakomur má finna á vef Grundarfjarðarbæjar.