Í samstarf við HÍ um Ugluna

Vilhjálmur Egilsson, rektor Háskólans á Bifröst og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, hafa undirritað viljayfirlýsingu um að tölvukerfið Ugla, sem er í eigu Háskóla Íslands, verði innleitt hjá Háskólanum á Bifröst á árinu 2019. Uglan hefur hingað til eingöngu verið notuð sem megintölvukerfi opinberu háskólanna þannig að hér er um nokkur tímamót að ræða hvað notkun hennar varðar. Ugla er upplýsingakerfi sem nýtist háskólum í að halda utan um nemendaskráningu, námsumsjón og ýmislegt annað er varðar sjálft háskólastarfið. Uglan er því hjartað í starfi háskólanna og er notuð í öllum opinberu háskólunum og verður það nú einnig á Bifröst. Uglan er alfarið innlend framleiðsla og er þróuð og hýst hjá Upplýsingatæknisviði HÍ. „Um er að ræða heildstæða lausn sem miðast við íslenskar aðstæður og er þróun Uglunnar stýrt sameiginlega af öllum háskólunum. Ugla hefur leitt af sér mikla hagræðingu fyrir íslenska háskóla, m.a. með sameiginlegum rekstri kerfisins hjá Háskóla Íslands. Fjöldi skráðra notenda er á fjórða tug þúsunda og er dagleg notkun kerfisins með því mesta sem gerist hér á landi,“ segir í tilkynningu frá Háskólanum á Bifröst.

Líkar þetta

Fleiri fréttir