Hætti á frystitogara eftir aldarfjórðung þar og keypti sér smábát

Hann kemur út á svalainnganginn um leið og ég labba inn á þriðju hæðina úr stigaganginum á nýju þriggja hæða fjölbýlishúsi við Asparskóga á Akranesi. „Það er eitthvað samband á milli okkar nafni, ég fann á mér að þú værir að koma,“ segir Haraldur Jónsson, sjómaður í rúmlega hálfa öld. Alltaf kallaður Haddi Jóns, fæddur og uppalinn Akurnesingur, sem hefur samt þvælst víða. „Mesti þvælingurinn var þegar ruglið var sem mest. Þá var það sjómennska í nokkrum verstöðvum og verbúðalíf með öllu því sukki sem því fylgdi, það var rosalegt líf,“ segir hann. Við setjumst niður að spjalla í nýrri og fallegri íbúð Hadda Jóns og Sollu, Sólveigar Jóhannesdóttur eiginkonu hans. Þau fluttu inn í þessa íbúð í janúar síðastliðnum eftir að hafa selt óðalið sitt Móa undir Akrafjalli með einu símtali. Hann segist kominn í land eftir að hafa verið síðasta aldarfjórðunginn á frystitogara en eitt fyrsta verkið eftir að hann kom í land var þó að kaupa trillubát með Guðmundi bróður sínum og syni hans. Nú er hann á grásleppu og fer svo á strandveiðar. Það er ekki sjómennska í augum þessa sjóhunds, eins og oft var sagt um þá hörðustu í sjómennskunni. Haddi Jóns er búinn að reyna margt í lífinu. Áföllin hafa dunið á honum hvert af öðru og hann getur verið stoltur af því að standa uppréttur í dag með allt sitt á hreinu. Sextíu og sjö ára gamall felst hann á að rifja ýmislegt upp, búinn að vera edrú í 36 ár.

Sjá ítarlegt og hreinskiptið viðtal Haraldar Bjarnasonar blaðamanns við Hadda Jóns í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir