Svipmynd úr starfi leikskólans Uglukletts. Ljósm. úr safni Skessuhorns.

Vellíðan og Vinátta í öndvegi hjá Uglukletti

Leikskólinn Ugluklettur hefur fengi úthlutað styrk upp á 1,2 milljón króna úr Sprotasjóði fyrir verkefnið Vellíðan og Vinátta í skólasamfélagi. Árið 2013 varð skólinn tilraunaleikskóli fyrir verkefnið Vinátta – Fri for Mobberi á vegum Barnaheilla og hefur gefist vel að nýta efni verkefnisins í sérstökum stundum en nú er áætlað að taka verkefnið skrefinu lengra og flétta það inn í allt daglegt starf leikskólans. Ætlunin er að útfæra efni Vináttu út frá stefnu og sérstöðu leikskólans, sé rauður þráður í starfi hans og þannig fáist enn betri skólabragur.

Í tilkynningu frá skólanum segir að stefna Uglukletts sé að undirbúa börnin undir framtíð sem enginn veit hvað ber í skauti sér og af þeim sökum er lögð megin áhersla á að efla félagslega hæfni, frumkvæði og sjálfræði barna því það er gott veganesti út í lífið. „Í gegnum tíðina hefur mikið verið lagt upp úr vellíðan í leikskólanum og í skólanámskrá Uglukletts segir að hamingja sé í grunninn það að geta látið gott af sér leiða, unnið með veikleika í gegnum styrkleika, haft ánægju af öðru fólki, geta unnið með og borið virðingu fyrir öðrum. Verkefnið Vinátta byggir á nýjustu rannsóknum á einelti og á ákveðinni hugmyndafræði og gildum sem mikilvægt er að séu samofin öðru starfi þeirra skóla sem vinna með efnið. Vinátta felst í því að fyrirbyggja einelti með því að móta góðan skólabrag, eiga góð samskipti og hafa jákvæð viðhorf til allra í hópnum. Lögð er sérstök áhersla á að ná til þeirra barna og fullorðinna sem verða vitni að einelti og hvetja þau til að bregðast við því. Þátttaka barna, starfsmanna og foreldra er grundvöllur þess að vel takist til auk þess að notast er við sem fjölbreyttust verkefni og vinnubrögð svo að öll börn geti nýtt styrkleika sína og lagt sitt af mörkum til að vera góður félagi og sýnt vináttu, umhyggju, virðingu og hugrekki, sem eru þau fjögur grunngildi, sem Vinátta byggir á,“ segir í tilkynningu frá Uglukletti.

Líkar þetta

Fleiri fréttir