Kaupakonur á Hvanneyri. Ljósm. úr safni Landbúnaðarháskóla Íslands.

Sýningin ,,Konur í landbúnaði í 100 ár“ opnuð á Hvanneyrarhátíð í sumar

Vantar myndir úr búskaparsögu borgfirskra kvenna í hundrað ár

Í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands verður sýning um þátt kvenna í landbúnaði síðustu 100 árin sett upp í Halldórsfjósi á Hvanneyri. Sýningin er samstarfsverkefni Landbúnaðarsafns Íslands, Landbúnaðarháskóla Íslands og Kvenfélagsins 19. júní sem einnig á afmæli í ár en þetta fjölmennasta kvenfélag Borgarfjarðar fyllir nú 80 árin. Sýningin hefur hlotið styrki úr Fullveldissjóði, Uppbyggingarsjóði Vesturlands og frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Opnunardagur sýningarinnar verður á Hvanneyrarhátíð laugardaginn 7. júlí næstkomandi og mun sýningin standa út sumarið.

 

Leitað til Borgfirðinga og brottfluttra

Sýningunni er ætlað að varpa ljósi á mikilvægan og fjölbreyttan þátt kvenna í landbúnaði en sá þáttur hefur oft farið dult í umræðunni um íslenskan landbúnað í gegnum árin. Á sýningunni verða myndir og frásagnir sem gera störfum og stöðu kvenna skil yfir þetta tímabil og er stefna vinnuhópsins sem stendur að sýningunni að leggja áherslu á borgfirskar sögur þó aðrar séu að sjálfsögðu velkomnar líka. Því leitar vinnuhópurinn nú til Borgfirðinga og brottfluttra: Hefur þú áhugaverða og landbúnaðartengda sögu að segja af þér, mömmu, ömmu, frænku eða vinkonu frá árunum 1918 – 2018? Átt þú mynd(ir) af konum úr fjölskyldunni eða vinahópnum frá þessum tíma sem tengjast umfjöllunarefni sýningarinnar? Ef svo er þá tekur vinnuhópurinn fegins hendi við hvers lags upplýsingum, gögnum og ábendingum.

Hægt er að hafa samband við Ragnhildi Helgu, safnstjóra Landbúnaðarsafnsins, á netfangið ragnhildurhj@lbhi.is, við Álfheiði Sverris, fulltrúa Landbúnaðarháskóla Íslands í vinnuhópnum, á netfangið alfheidursverris@lbhi.is eða við Önnu Heiðu Baldursdóttur, sýningarstjóra, á netfangið ahb9@hi.is.

Líkar þetta

Fleiri fréttir