Mynd dagsins teiknaði Sól Hrafnsdóttir.

Hátíð í tali og tónum í Borgarfirði á laugardaginn

Laugardaginn 2. júní næstkomandi verður þess minnst í Reykholti að 250 ár eru liðin frá drukknun Eggerts Ólafssonar og fylgdarliðs hans – 30. maí 1768. Staðurinn í Reykholti er hins vegar tengdur minningu Eggerts með gleðilegri hætti, því í fyrra voru 250 ár liðin frá hinu fræga brúðkaupi þeirra Eggerts og Ingibjargar Guðmundsdóttur þar á staðnum. Yfir 100 boðsgestir sóttu brullaupið sem stóð í um vikutíma – enda kallað brúðkaup aldarinnar átjándu. Brúðguminn, höfðingjar og fylgdarmenn tjölduðu á flöt fyrir ofan tún, og riðu þaðan í fræga brúðgumareið að staðnum. Fékk flötin nafn af skáldinu og náttúrufræðingnum – Eggertsflöt. Á laugardaginn verður afhjúpað skilti á Eggertsflöt til minningar um þessa viðburði.

Eggert boðaði fólki trú á landið, möguleika þess til að brauðfæða þjóðina, nýta grös og jurtir – og tré og runna.  Það rímar því einnig við minningu hans að á laugardaginn verður tilkynnt um stækkun lands undir grænan skóg í Reykholti – og afhjúpað verður nýtt skilti til marks um þau tímamót sem nú verða í sögu Reykholtsskóga. Skógur í Reykholti á sér orðið nokkuð langa sögu en undanfarin misseri hefur Skógræktarfélag Borgarfjarðar í samvinnu við  sóknarprestinn Sr. Geir Waage unnið að þessu verkefni sem nú er loks í höfn.

Kl. 14 hefst svo dagskrá í tali og tónum um Eggert Ólafsson í Reykholtskirkju. Tónlistarmaðurinn góðkunni KK – Kristján Kristjánsson sér um tónlistarflutning og hefur sér til aðstoðar Kristínu Á. Ólafsdóttur. Óskar Guðmundsson rithöfundur í Reykholti segir frá ævi Eggerts og skáldskap hans en dagskrárstjóri er Jónína Eiríksdóttir.

Bergur Þorgeirsson forstöðurmaður Snorrastofu setur hátíðina og afhjúpar skilti við Eggertsflöt kl. 13.15 en kl. 13.30 afhjúpa þau sr. Geir Waage, Laufey Hannesdóttir og Anna Gunnlaug Jónsdóttir skógræktarskiltið. Sól Hrafnsdóttir myndlistarmaður hefur teiknað skiltið á Eggertsflöt og Birna Geirfinnsdóttir hannaði bæði skiltin. Eftir afhjúpun skilta verður gengið til dagskrár í Reykholtskirkju.

Fréttatilkynning

Tónlistarmaðurinn Kristján Kristjánsson kemur fram ásamt Kristínu Á Ólafsdóttur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir